Handbolti

Fagnaðarlæti í flugstöðinni í meistaramyndbandi KA/Þórs

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrirliðinn Martha Hermannsdóttir með verðlaunagripinn sem KA/Þór vann til í fyrsta sinn í sögunni.
Fyrirliðinn Martha Hermannsdóttir með verðlaunagripinn sem KA/Þór vann til í fyrsta sinn í sögunni. vísir/hulda

Leikmenn KA/Þórs skráðu sig í sögubækurnar með því að vinna Olís-deildina í handbolta í fyrsta sinn, nú þegar deildin hefur líklega aldrei verið sterkari. Liðið fékk frábærar móttökur við komuna til Akureyrar eftir að hafa tryggt sér titilinn.

Vegna samkomutakmarkana gátu ekki margir stuðningsmanna KA/Þórs fagnað með liðinu í Safamýri á laugardag, þegar titillinn var í höfn. Þegar leikmenn og þjálfarar lentu á flugvellinum á Akureyri beið þeirra hins vegar fjöldi stuðningsmanna, blóm voru veitt og titlinum fagnað.

KA TV hefur nú birt meistaramyndband þar sem sjá má fögnuðinn í flugstöðinni, tilþrif úr leiknum við Fram og viðtöl við Mörthu Hermannsdóttur fyrirliða og Andra Snæ Stefánsson þjálfara sem fagnaði titli á fyrsta ári sínu í starfi.

„Við erum alls ekki saddar. Við ætlum okkur alla leið,“ sagði Martha. „Þetta er frábært tímabil og ég er mjög stoltur. Frammistaðan hefur verið geggjuð og núna er úrslitakeppnin framundan og við förum með fullt sjálfstraust í hana,“ sagði Andri Snær.

Tímabilið hefur rússíbanareið fyrir KA/Þór sem meðal annars lenti í þeim fordæmalausu aðstæðum að þurfa að endurtaka leik við Stjörnuna vegna kærumáls. Kórónuveirufaraldurinn olli líka hléum og að lokum styttingu mótsins.

Örlögin voru hins vegar í höndum KA/Þórs þegar liðið fór í Safamýri í lokaumferðinni og dugði þar jafntefli við Fram til að verða deildarmeistari. Það gekk eftir, 27-27, þrátt fyrir að staðan væri 17-12 fyrir Fram í hálfleik (þannig var staðan einmitt líka þegar mistök voru gerð á ritaraborði í leiknum við Stjörnuna, sem leiddu til þess á endanum að leikurinn var spilaður aftur).

KA/Þór og Fram sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en hefja atlögu sína að Íslandsmeistaratitlinum eftir tæpar tvær vikur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.