Körfubolti

Westbrook bætti nær hálfrar aldar gamalt þrennumet Oscars Robertson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook skrifaði NBA-söguna í nótt.
Russell Westbrook skrifaði NBA-söguna í nótt. getty/Casey Sykes

Russell Westbrook bætti í nótt met Oscars Robertson yfir flestar þrefaldar tvennur í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Westbrook náði sinni 182. þrennu á ferlinum þegar hann tók frákast þegar átta og hálf mínúta voru eftir af leik Atlanta Hawks og Washington Wizards. Hann bætti þar með met Robertsons sem hafði staðið í 47 ár.

Westbrook skoraði 28 stig, tók þrettán fráköst og gaf 21 stoðsendingu í naumu tapi Washington, 125-124. Westbrook fékk tækifæri til að tryggja Galdramönnunum sigurinn en þriggja stiga skot hans þegar tvær sekúndur voru eftir geigaði. Washington lék án Bradleys Beal, næststigahæsta leikmanns NBA, í nótt.

Trae Young skoraði 36 stig fyrir Atlanta og John Collins 28. Bogdan Bogdanovic heldur áfram að spila vel fyrir Haukana og skoraði 25 stig.

Stephen Curry skoraði 36 stig þegar Golden State Warriors sigraði Utah Jazz, topplið Vesturdeildarinnar, 119-116. Með sigrinum tryggði Golden State sér sæti í umspili um sæti í úrslitakeppninni.

Curry er stigahæstur í deildinni með 31,9 stig að meðaltali í leik. Hann skoraði ellefu stig af vítalínunni í nótt og setti niður stórt þriggja stiga skot undir lokin. Curry hefur þó oft hitt betur úr þristum en í nótt.

Jordan Clarkson skoraði 41 stig fyrir Utah og Bojan Bogdanovic 27 stig. Donovan Mitchell og Mike Conley léku ekki með liðinu í nótt.

Memphis Grizzlies tryggði sér einnig sæti í umspilinu með sigri á New Orleans Pelicans, 115-110. Dillon Brooks skoraði 23 stig fyrir Memphis og Jonas Valanciunas var með tuttugu stig og ellefu fráköst.

Úrslitin í nótt

  • Atlanta 125-124 Washington
  • Golden State 119-116 Utah
  • Memphis 115-110 New Orleans
  • Cleveland 102-111 Indiana
  • San Antonio 146-125 Milwaukee
  • Portland 140-129 Houston

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.