Erlent

Tölvuárás gerð á stærstu eldsneytisleiðslu Bandaríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Colonial-leiðslan er sú stærsta í Bandaríkjunum.
Colonial-leiðslan er sú stærsta í Bandaríkjunum. Colonial Pipeline

Bandarísk yfirvöld gáfu í gær út neyðarheimild eftir að stærsta eldsneytisleiðsla landsins varð fyrir netárás. Um það bil 2,5 milljónir tunna af eldsneyti flæða um Colonial-leiðsluna daglega en það jafngildir um 45 prósent eldsneytisnotkunar austurstrandarinnar.

Leiðslan var „tekin úr sambandi“ af netglæpamönnum á föstudag og enn er unnið að því að koma henni í gagnið á ný. Neyðarlöggjöfin heimilar flutning á eldsneyti á vegum landsins á meðan.

Átján ríki hafa fengið heimild til að flytja eldsneyti um vegakerfið; Alabama, Arkansas, District of Columbia, Delaware, Flórída, Georgía, Kentucky, Louisiana, Maryland, Mississippi, New Jersey, New York, Norður-Karólína, Pennsylvanía, Suður-Karólína, Tennessee, Texas og Virginía.

Sérfræðingar segja líkur á tveggja til þriggja prósenta hækkun á eldsneytisverði en að það gæti hækkað enn meira ef viðgerðir dragast á langinn. Fyrstu ríkin til að verða fyrir áhrifum yrðu Atlanta og Tennessee en svo yrði um að ræða dómínóáhrif til New York.

BBC hefur eftir olíumarkaðssérfræðingnum Gaurav Sharma að eftirspurn væri nú langt umfram framboð, á sama tíma og olíubirgðir í Bandaríkjunum færu minnkandi. Eftirspurnina mætti meðal annars rekja til þess að hagkerfið væri að hrista af sér áhrif kórónuveirunnar.

Dæmi um skilaboð netglæpahópa á borð við DarkSide.

Samkvæmt heimildum BBC var árásin framkvæmd af netglæpahóp sem kallar sig DarkSide en hann er sagður hafa gert árás á netkerfi Colonial á fimmtudag og tekið 100 gígabæt af gögnum „í gíslingu“.

Talsmenn Colonial sögðu í gær að fjórar stærstu æðar leiðslunnar væru enn óvirkar en tekist hefði að virkja margar styttri leiðir.

Að sögn BBC fá fórnarlömb glæpahópa á borð við DarkSide upp tilkynningu á tölvukerfinum sínum þar sem farið er fram á lausnargjald. Þá er þeim sendur gagnapakki, þar sem fram kemur að búið sé að dulkóða kerfin þeirra og hvers konar gögnum hafi verið stolið.

Glæpahóparnir eru reknir eins og fyrirtæki, segja sérfræðingar.

BBC fjallar ítarlega um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.