Körfubolti

Elvar Már gaf 17 stoð­sendingar í grát­legu tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára

Siauliai tapaði með eins stigs mun gegn Neptunas í tvíframlengdum leik í litáenska körfuboltanum í dag, lokatölur 107-106. Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik í liði Siauliai að venju.

Elvar Már og félagar byrjuðu leikinn ágætlega en heimamenn tóku öll völd á vellinum í öðrum leikhluta. Staðan 41-36 í hálfleik Neptunas í vil. Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum en Siauliai tókst að jafna metin undir lok leiks og því þurfti að framlengja.

Þar var sóknarleikur í hávegum hafður og fór það svo að Neptunas vann framlenginguna með einu stigi, 29-28 og þar með leikinn 107-106.

Elvar Már gaf eins og áður sagði 17 stoðsendingar í leiknum. Enginn á vellinum var nálægt því en næst stoðsendingahæsti maður leiksins gaf sjö slíkar. Samkvæmt samfélagsmiðlum var Elvar Már aðeins einni stoðsendingu frá meti deildarinnar sem eru 18 talsins. 

Þá skoraði Elvar Már 15 stig sjálfur ásamt því að taka þrjú fráköst.

Siauliai er í 7. sæti með 12 sigra og 23 töp í 35 leikjum. Alls eru tíu lið í deildinni, eitt fellur og átta fara í úrslitakeppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.