Körfubolti

„Ég hef séð Loga setja þetta skot ansi oft“

Atli Arason skrifar
Sigurður Gunnar var öflugur í kvöld, sem fyrr.
Sigurður Gunnar var öflugur í kvöld, sem fyrr. vísir/vilhelm

Sigurði Gunnari Þorsteinssyni var ansi létt þegar hann kom í viðtal í leikslok eftir æsispennandi lokamínútu í leik Njarðvíkur og Hattar í kvöld. Logi Gunnarsson fékk tækifæri til að vinna leikinn fyrir Njarðvík þegar 2,7 sekúndur voru eftir en þriggja stiga tilraun hans fór ekki niður.

„Ég er bara rosalega feginn. Ég hef séð Loga setja þetta skot ansi oft og hann fékk það galopið. Ég er bara svolítið feginn að hann klikkaði,“ sagði Sigurður en hann vildi meina að öflugur varnarleikur Hattar væri ástæðan fyrir sigri þeirra í kvöld.

„Við höldum þeim í 72 stigum á heimavelli þannig að vörnin skilaði sigrinum.“

Hefði Njarðvík unnið þennan leik þá væri staða Hattar á botninum ansi svört. Þess í stað er Höttur komið í 11. sæti deildarinnar, einungis tveimur stigum á eftir Njarðvík ásamt því að eiga betri innbyrðis viðureignir gegn Njarðvík á tímabilinu. Sigurður er alls ekki á þeim buxunum að vera að velta sér eitthvað upp úr stöðunni eins og hún er akkurat núna.

„Við getum ekki verið að spá eitthvað í töflunni. Við vorum bara að hugsa um þennan leik og að vinna hann. Núna förum við inn í klefa, þvoum okkur og hugsum um næsta leik. Það er bara svona úrslitakeppnis eða bikarkeppnis hugarástand hjá okkur. Við getum ekki verið að spá í því að horfa á einhverja töflu, við verðum bara að vinna leiki.“

Sigurður hefur spilað samfellt í efstu deild á Íslandi u.þ.b. 15 ár og hann hefur engan áhuga á því að falla úr deildinni núna.

„Ég held að ég hafi fallið með KFÍ þegar ég var 16 eða 17 ára en ég ætla alls ekki að gera það aftur. Ég ætla bara að vinna næsta leik,“ bætti Sigurður við, harðákveðinn.

Næsti leikur Hattar er gegn Þór á Akureyri þar sem Höttur verður að sækja stig.

„Við verðum bara að halda áfram að gera það sem við erum að gera vel. Ef við spilum góða vörn þá koma sigrarnir,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson að lokum
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.