Körfubolti

NBA dagsins: Curry óður í apríl, Brooklyn vann stórleikinn og Boston hangir á brúninni

Sindri Sverrisson skrifar
Steve Kerr og Stephen Curry léttir í bragði eftir sigurinn í San Francisco í gærkvöld.
Steve Kerr og Stephen Curry léttir í bragði eftir sigurinn í San Francisco í gærkvöld. AP/Tony Avelar

Stephen Curry greip frákast á ögurstundu og hélt áfram að fara á kostum í NBA-deildinni í körfubolta í gær. Brooklyn Nets unnu stórleikinn við Phoenix Suns en Boston Celtics tapaði leik í harðri baráttu um öruggt sæti í úrslitakeppninni. Þetta og meira til í NBA dagsins hér á Vísi.

Curry hélt áfram að fara á kostum þegar hann setti niður 37 stig í 117-113 sigri Golden State Warriors á Sacramento Kings. Sacramento fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn í lokin en það tókst ekki og Curry hirti bráðnauðsynlegt varnarfrákast.

Curry hefur nú skorað 85 þriggja stiga körfur í apríl og það er met í einum mánuði í NBA-deildinni. Hann setti niður sjö þrista í gær en tilþrif hans og fleira til má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 26. apríl

Golden State er í 10. sæti vesturdeildar og á leið í umspil í næsta mánuði um sæti í úrslitakeppninni, eins og sakir standa. Þar spila liðin í 7.-10. sæti um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni.

Boston Celtics eru í harðri baráttu um að forðast að fara í þetta umspil í austurdeildinni og hanga bókstaflega á brúninni. Þeir eru nú jafnir Miami Heat í 6.-7. sæti, með 32 sigra og 29 töp. Boston tapaði 125-104 fyrir Charlotte Hornets í gær og er Charlotte nú með 30 sigra og 30 töp í 8. sætinu.

Brooklyn Nets unnu svo 128-119 sigur gegn Phoenix Suns í uppgjöri toppliðs austurdeildarinnar og liðsins í 2. sæti vesturdeildar. Kevin Durant sneri aftur eftir meiðsli og þeir Kyrie Irving skoruðu samtals 67 af stigum Brooklyn.

Svipmyndir úr leikjunum og bestu tilþrif næturinnar má sjá í NBA dagsins hér að ofan.

NBA

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.