Körfubolti

Goðumlík frammistaða hjá Grikkjanum í sigri í Fíladelfíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo leiddi Milwaukee Bucks til sigurs á toppliði Austurdeildarinnar, Philadelphia 76ers.
Giannis Antetokounmpo leiddi Milwaukee Bucks til sigurs á toppliði Austurdeildarinnar, Philadelphia 76ers. ap/Aaron Gash

Milwaukee Bucks sigraði Philadelphia 76ers, 124-117, þegar liðin í 1. og 3. sæti Austurdeildar NBA áttust við í nótt.

Milwaukee var mun sterkari aðilinn í leiknum og var yfir allan tímann. Mestur varð munurinn á liðunum 21 stig.

Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Milwaukee, skoraði 27 stig, tók sextán fráköst og gaf sex stoðsendingar. Khris Middleton skoraði 24 stig og Bobby Portis 23. Joel Embiid skoraði 24 stig fyrir Philadelphia sem var án Bens Simmons í leiknum í nótt.

Eftir þrjátíu leikja fjarveru sneri Anthony Davis aftur í lið Los Angeles Lakers gegn Dallas Mavericks. Endurkoma hans dugði þó skammt því Dallas vann fimm stiga sigur, 115-110.

Luka Doncic skoraði þrjátíu stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Dallas sem gerir atlögu að sæti í úrslitakeppninni, án þess að þurfa að fara í umspil.

Davis skoraði aðeins fjögur stig í endurkomunni og hitti úr tveimur af tíu skotum sínum utan af velli. Kentavious Caldwell-Pope skoraði 29 stig fyrir Lakers og Dennis Schröder var með 25 stig og þrettán stoðsendingar.

Boston Celtics vann góðan sigur á Phoenix Suns, 99-86. Þetta var níundi sigur Boston í síðustu ellefu leikjum.

Kemba Walker átti sinn besta leik á tímabilinu fyrir Boston og skoraði 32 stig. Jayson Tatum skoraði fimmtán stig og tók ellefu fráköst.

Chris Paul stóð upp úr í liði Phoenix með 22 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar. Liðið er enn í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslitin í nótt

  • Milwaukee 124-117 Philadelphia
  • Dallas 115-110 LA Lakers
  • Boston 99-86 Phoenix
  • Orlando 100-135 New Orleans
  • San Antonio 106-91 Detroit
  • Chicago 108-91 Charlotte

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×