Körfubolti

Darri: Fannst við sýna hvernig við töpum og vinnum sem lið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Darri Freyr var svekktur með tap sinna manna í kvöld
Darri Freyr var svekktur með tap sinna manna í kvöld vísir/vilhelm

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, var eðlilega svekktur með tap sinna manna gegn Þór Þorlákshöfn í Dominos deild karla í kvöld. Hann sá þó jákvæða kafla í leiknum og vildi einblína á þá.

„Ég er auðvitað ósáttur við að tapa þessum leik. Mér fannst við sýna hvernig við töpum og vinnum sem lið,“ sagði Darri eftir leikinn í kvöld.

„Við erum ekki á þeim stað varnarlega að við getum leyft okkur að vera ekki alveg 100% on. Við erum ekki með fimm svona einn á einn stoppara á vellinum á sama tíma og þegar það eru svona litlir hlutir varnarlega eins og að stíga á skotmanninn í horninu þegar það er engin ástæða til og svo framvegis, þá refsa góð lið eins og Þór okkur. Það er það sem gerðist í fyrri hálfleik og þá erum við komnir með bakið upp við vegg.“

Darri sá þó jákvæða kafla í leik sinna manna.

„Við rífum okkur í gang þegar það eru fimm mínútur eftir af þriðja og sýnum síðan hvernig við vinnum svona leiki þegar þetta fer úr 21 stigi niður í sjö á einhverjum tíu mínútna kafla. Við þurfum bara að fókusa á þessa hluti og reyna að gera meira af þeim.“

Bæði lið virkuðu frekar ryðguð eftir pásuna á stórum köflum í leiknum, en Darri vildi ekki kenna því um tapið í kvöld.

„Það bara skiptir eiginlega ekki máli. Bæði af því að það sama gildir um alla og að maður þarf bara að gíra sig upp. Það eru bara fimm leikir eftir og svo úrslitakeppni.“

KR mætir Haukum á sunnudaginn og Darri segir það gott eftir tapleik að það sé stutt í næsta leik.

„Þetta er búið að vera svona allt tímabilið og maður er orðinn vanur þessu. Þetta er ágætt, og sérstaklega eftir tapleiki að geta bara snúið þessu bara hratt við og gert eitthvað af viti.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.