Körfubolti

NBA dagsins: Nuggets marði Portland, ekkert fær Randle stöðvað og háspenna í leik 76ers og Suns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julius Randle hefur verið sjóðandi heitur undanfarnar vikur.
Julius Randle hefur verið sjóðandi heitur undanfarnar vikur. NBA

Það fóru ekki nema tólf leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Julius Randle var í gírnum, Phoenix Suns lagði Philadelphia 76ers þrátt fyrir stórleik Joel Embiid og það var háspenna lífshætta í leik Denver Nuggets og Portland Trail Blazers.

Phoenix Suns lagði Philadelphia 76ers í hörkuleik, lokatölur 116-113. Chris Paul átti mjög góðan leik að venju í liði Phoenix, hann skoraði 28 stig og gaf átta stoðsendingar. Joel Embiid skoraði 38 stig í liði 76ers ásamt því að taka 17 fráköst.

Embiid var nálægt því að jafna leikinn eftir að Chris Paul klikkaði á vítaskoti undir lok leiks. Embiid náði boltanum og henti honum þvert yfir völlinn og var hársbreidd frá því að jafna metin.

New York Knicks vann einnig tíu stiga sigur á Atlanta Hawks í framlengdum leik, lokatölur 137-127. Julius Randle hefur verið nær óstöðvandi í liði Knicks undanfarnar vikur og var það enn á ný í nótt. Hann skoraði 40 stig og tók 11 fráköst. 

Þá vann Denver Nuggets eins stigs sigur á Portland Trail Blazers, 106-105. Nikola Jokić skoraði 25 stig í liði Nuggets og tók 9 fráköst. Damian Lillard svar stigahæstur í liði Portland með 22 stig.

Hér að neðan má sjá allt það helsta úr leikjunum þremur.

Klippa: NBA dagsins

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.