Körfubolti

Töfra­mennirnir stöðvuðu Curry, stór­leikur Embi­id dugði ekki til og Doncic sá um Detroit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka Dončić var frábær að venju í nótt.
Luka Dončić var frábær að venju í nótt. Tom Pennington/Getty Images

Það fóru ekki nema tólf leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Stephen Curry snöggkólnaði gegn Washington Wizards, Phoenix Suns lagði Philadelphia 76ers þrátt fyrir stórleik Joel Embiid og Luka Dončić var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu.

Russell Westbrook bauð hins vegar upp á þrefalda tvennu er Washington Wizards unnu fjögurra stiga sigur á Golden State Warriors, lokatölur 118-114. Westbrook skoraði aðeins 14 stig en tók 20 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Bradley Beal skoraði 29 stig og tók 10 fráköst í liði Wizards.

Stephen Curry tókst ekki að halda ótrúlegu gengi sínu áfram en hann hefur verið hreint ótrúlegur í aprílmánuði. Hann skoraði 18 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Kelly Oubre Jr. var stigahæstur í liði Warriors.

Phoenix Suns lagði Philadelphia 76ers í hörkuleik, lokatölur 116-113. Chris Paul átti mjög góðan leik að venju í liði Phoenix, hann skoraði 28 stig og gaf átta stoðsendingar. Joel Embiid skoraði 38 stig í liði 76ers ásamt því að taka 17 fráköst.

Embiid var nálægt því að jafna leikinn eftir að Chris Paul klikkaði á vítaskoti undir lok leiks. Embiid náði boltanum og henti honum þvert yfir völlinn og var hársbreidd frá því að jafna metin.

Luka Dončić var að venju frábær í liði Dallas sem vann tíu stiga sigur á Detroit PIstons, lokatölur 127-117. Slóveninn ungi skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Jerami Grant skoraði 26 stig í liði Pistons.

New York Knicks vann einnig tíu stiga sigur á Atlanta Hawks í framlengdum leik, lokatölur 137-127. Julius Randle hefur verið nær óstöðvandi í liði Knicks undanfarnar vikur og var það enn á ný í nótt. Hann skoraði 40 stig og tók 11 fráköst. 

Clint Capela hélt áfram að taka fáránlega mörg fráköst í liði Atlanta, hann tók 22 slík ásamt því að skora 25 stig.

Þá vann Denver Nuggets eins stigs sigur á Portland Trail Blazers, 106-105. Nikola Jokić skoraði 25 stig í liði Nuggets og tók 9 fráköst. Damian Lillard svar stigahæstur í liði Portland með 22 stig.

Önnur úrslit

Toronto Raptors 114-103 Brooklyn Nets

Indiana Pacers 122-116 Oklahoma City Thunder

Cleveland Cavaliers 121-105 Chicago Bulls

Houston Rockets 89-112 Utah Jazz

San Antonio Spurs 87-107 Miami Heat

Sacramento Kings 128-125 Minnesota Timberwolves

Los Angeles Clippers 117-105 Memphis Grizzlies

Staðan í deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.