Körfubolti

Doncic hetjan á ögur­stundu, Curry frá­bær og 76ers vann upp­gjör topp­liðanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka Dončić tryggði Dallas sigur með ótrúlegri flautukörfu.
Luka Dončić tryggði Dallas sigur með ótrúlegri flautukörfu. NBA

Alls fóru tólf leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Af nægu var að taka en mesta spennan var í leik Dallas Mavericks og Memphis Grizzlies þar sem sigurkarfan kom undir lok leiks, lokatölur 114-113.

Þá vann Philadelphia 76ers frábæran sigur á Brooklyn Nets, 123-117, og Stephen Curry var að venju frábær í liði Golden State Warriors sem vann Oklahoma City Thunder, 147-109.

Leikur Memphis og Dallas var frábær skemmtun. Dallas hafði gengið brösuglega undanfarið og þurfti á sigri að halda. Hann hefði vart getað orðið dramatískari. Eftir hnífjafnan leikvoru Dallas undir en með boltann þegar 1.8 sekúnda voru eftir á klukkunni.

Luka Dončić fékk boltann, náði einhvern veginn skoti með annarri hendi er hann tróð sér á milli manna og viti menn, boltinn fór ofan í. Ótrúleg sigurkarfa hjá Dončić og Dallas vann leikinn 114-113.

Slóveninn skoraði alls 29 stig í liði Dallas á meðan Grayson Allen var stigahæstur hjá Memphis með 23 stig.

Philadelphia 76ers vann Brooklyn Nets í uppgjöri toppliða Austurdeildarinnar. Fyrir leik voru bæði lið búin að vinna 37 leiki og tapa 18. Fór það svo að Philadelphia vann sex stiga sigur, 123-117, þökk sé frábærri frammistöðu Joel Embiid.

Embiid gerði sér lítið fyrir og skoraði 39 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Enginn leikmaður á vellinum skoraði meira og enginn í hans eigin liði var nálægt tveggja stafa tölu í fráköstum. Hjá Nets var Kyrie Irving stigahæstur með 37 stig.

Stephen Curry skoraði 42 stig, gaf átta stoðsendingar og tók sex fráköst í stórsigri Golden State Warriors á Oklahoma City Thunder, 147-109. Þá var Draymon Green með þrefalda tvennu en hann skoraði 12 stig, gaf 16 stoðsendingar og tók 10 fráköst.

Nikola Jokić var með þrefalda tvennu í sigri Denver Nuggets á Miami Heat. Jokić skoraði 17 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 10 fráköst í 123-106 sigri Denver. Julius Randle skoraði 32 stig í 116-106 sigri New York Knicks á New Orleans Pelicans.

Staðan í deildinni.

Önnur úrslit

Minnesota Timberwolves 105-130 Milwaukee Bucks

Charlotte Hornets 90-103 Cleveland Cavaliers

Toronto Raptors 117-112 San Antonio Spurs

Chicago Bulls 106-115 Orlando Magic

Detroit Pistons 98-100 Los Angeles Clippers

Houston Rockets 124-132 Indiana Pacers

Sacramento Kings 111-123 Washington Wizards
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.