Skoðun

Um bólu­setningu flug­á­hafna

Baldur Vilhjálmsson skrifar

Víða um heim leggja yfirvöld áherslu á að bólusetja flugáhafnir sínar til að liðka fyrir bæði nauðsynlegum vöruflutningum og endurreisn ferðaþjónustunnar. Þegar bólusetningarferli flugáhafna víðsvegar um heiminn eru skoðuð bendir flest til þess að íslenskar áhafnir séu mjög aftarlega i ferlinu.

Tilmæli alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru að flugfólk sé í 3. forgangshópi (e. 3. phase) þegar kemur að bólusetningum og hefur Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) tekið undir það frá upphafi faraldurs. Þann 25.mars ítrekaði EASA svo tilmæli sín um að áhafnir yrðu bólusettar eins fljótt og hægt er í samræmi við afhendingarferli bóluefnis. Á Íslandi eru flugáhafnir hins vegar í 10. forgangshópi – það er að segja í alls engum forgangi.

Í sjálfu sér er það ekkert vandamál að við flugfólk séum ekki sett framar í forgangshóp bólusetninga að því gefnu að við séum bara heima, dveljumst innanlands eins og flestir aðrir landsmenn. Sú er þó ekki raunin og við erum á ferð og flugi. Að sama skapi gæti tregðan við bólusetningu íslenskra áhafna haft verulega neikvæð áhrif á komandi ferðamannatíð.

Erlend yfirvöld setja flugsamgöngur í forgang

Erlendis hafa stór flugfélög á borð við Emirates, Qatar Airways, Etihad og flugfélög undir SIA samsteypunni í Singapore bólusett flest allt sitt flugfólk og hafið markaðsókn með þá staðreynd í fararbroddi. Þetta gera flugfélögin í náinni samvinnu við sín stjórnvöld og eru þessar aðgerðir þeirra bara dæmi um það sem er að gerast í flugheiminum.

Auðvitað munu farþegar í náinni framtíð skoða þessi atriði eins og önnur þegar velja á flugfélag til að ferðast með. Þessi flugfélög eru, og hafa verið, bæði beint og óbeint í samkeppni við Icelandair um farþega yfir Atlantshafið. Önnur stór félög, evrópsk og bandarísk, munu keppast við að gera slíkt hið sama til þess að laða til sín farþega.

Í Bandaríkjunum er forgangsröðun flugáhafna misjöfn eftir ríkjum en samkvæmt fyrirliggjandi lista eru flugfreyjur og -þjónar yfirleitt í hóp 1a, 1b eða 1c. Örfá ríki innan USA setja flugfólk í annan hóp og enn færri í þann þriðja. Þá hafa bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) sett aukinn þrýsting á yfirvöld um að flýta bólusetningum flugmanna, og virðast þær, eftir forsetaskiptin hafa tekið talsvert stökk.

Minna má á að bandarískt flugfélag hefur lagt fram all þétta flugáætlun til Íslands í sumar. Bresk flugfélög hugsa sér örugglega líka gott til glóðarinnar í Geldingadölum um leið og tækifæri gefst.

Við megum ekki láta það gerast að íslensk flugfélög verði ekki samkeppnishæf, þegar síst skyldi í þessum málum.

Hætta á smiti áhafna erlendis

Icelandair og ýmsir aðrir aðilar hafa ítrekað óskað þess að áhafnir fari framar í forgangsröðun fyrir bólusetningar, en án árangurs. Því miður hefur túlkun fjölmiðla helst verið sú að óskin sé dæmi um n.k. forréttindafrekju flugfólks og flugfélags þrátt fyrir að hagur heildarinnar, ferðaþjónustunnar og flugfélagsins liggi augljóslega undir.

Þess má geta til samanburðar að starfsfólk Leifsstöðvar, sem er í sýnilegri nánd við ferðafólk, var sett í forgangshóp 4 sem er vel. Það eru t.d. tollafgreiðslufólk, landamærastarfsmenn og ræstitæknar sem fara ekki úr landi en sjá ferðamenn í seilingarfjarlægð, oft jafnvel í gegnum gler. Sá hópur hefur að mestu verið bólusettur.

Til að liðka um fyrir flugþjónustu var sniðin sér undantekningarregla fyrir flugfólk sem er þannig að sé farið í vinnuna erlendis og heim aftur, þurfi ekki neinar ráðstafanir eftir heimkomu, sé fjarvera frá Íslandi innan við 72 klst. Svo merkilegt sem það er, þá er þetta túlkað sem vinnusóttkví. Sé fjarvera lengri þarf áhafnarmeðlimur að fara í hefðbundið sóttkvíarferli eins og aðrir. Út af fyrir sig er þetta gott framlag til ferðaþjónustunnar sem ber að þakka, það væri mjög kostnaðarsamt og snúið fyrir flugfélagið ef áhafnir enduðu alltaf í sóttkví eftir hverja vinnuferð.

Frá upphafi faraldurs hefur Icelandair lagt ríka áherslu á faglega fræðslu til starfsfólks, að gætt sé að sóttvörnum og að farið sé að ýtrustu reglum til að forðast smit.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hætta á smiti er talsverð erlendis þrátt fyrir að farið sé eftir ýtrustu reglum til að forðast smit. Innviðir erlendra hótela, áhafnarútur, flugvellir, veitingastaðir sem senda á hótel o.s.fr.v , og starfsfólk allra þessara staða geta verið smitberar. Snertifletir eru margir og tilskylda nánd milli fólks er vonlaust að tryggja.

Erlend flugfélög með framsýn yfirvöld fá verulegt forskot

Samkvæmt upplýsingavef yfirvalda er spáð að hópur 10, sem inniheldur í raun alla sem ekki eru í forgangshópum, verði bólusettur frá ca. 7. júni til loka júlí. Spár hafa ekki staðist vel hingað til og áætlanir enn síður. Virkni síðustu bólusetninga íslenskra flugáhafna mun því líklega ekki verða að fullu náð fyrr en í fyrsta lagi seint í haust eða næsta vetur.

Ekki er ólíklegt að sú staða komi upp að þegar erlend yfirvöld áætla að meirihluti flugfólks flugfélaga í hverju landi fyrir sig séu bólusettur, verði starfandi áhafnarmeðlimum erlendra ríkja, sem ekki hafa verið bólusettir að fullu, meinað að koma til viðkomandi landa. Sú staða gæti því skyndilega leitt til þess að Icelandair yrði sem múlbundið við staur vegna áhafnaskorts, uppistaða Icelandair áhafna væri enn óbólusett og það flug sem þó er flogið héðan til London, Boston og annarra áfangastaða Icelandair myndi raskast verulega tímabundið.

Á meðan myndu erlend flugfélög með framsýn yfirvöld sér til aðstoðar fljúga héðan og þaðan, þ.m.t á okkar helstu mörkuðum milli Evrópu og USA. Það væri líka vart á vandræðin bætandi hér hjá okkar litla flugfélagi, með spriklandi ferðamannagos í bakgarðinum, að erlend flugfélög hirtu í þokkabót rjómann af upphafi nýrrar ferðamannatíðar á íslandi vegna skammsýni í bólusetningum á íslensku flugfólki.

Spilað lottó með flugáhafnir og landamærasmit

Hurð hefur skollið nærri hælum, því a.m.k þrisvar á undanförnum mánuðum hefur mér verið tilkynnt að smit hafi fundist hjá farþegum í flugi hjá mér. Þó hef ég aðeins flogið brot af farþegaflugi Icelandair undanfarna 10-12 mánuði, þannig að tilfellin eru vafalaust fleiri.

Að mati sóttvarnarlæknis hefur sóttkví fyrir áhöfn í mínum tilfellum ekki talist nauðsynleg, en jafnframt hefur verið mælst til þess að hegðun okkar eftir flugið væri sem næst í líkingu við sóttkví og að við fylgdumst vel með heilsunni.

Hvað þýða þessi tilmæli? Þau þýða bara í mínum huga að verið er að spila lottó með flugáhafnir og landamærasmit sem flugfólk gæti auðveldlega borið til landsins.

Það væri svo miklu einfaldara að bólusetja áhafnir, losna við að mestu leyti líkur á að áhafnir beri smit inn í landið, gera Icelandair samkeppnishæfara, og losnað við að lenda í því sjónarspili sem ég reifaði hér ofar um hugsanleg bönn vinnuferða hjá óbólusettum áhafnarmeðlimum. Það gæti allt eins ræst eins og margt annað skrýtið tengt Covid, sem hefur ræst undanfarna mánuði.

Eftir stendur svo líka spurningin af hverju ekki er farið að tilmælum WHO og EASA hérlendis við bólusetningu flugfólks gegn Covid.

Höfundur er flugstjóri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.