Skoðun

Mót­sagna­kennd stefnu­mótun í land­búnaði

Eygló Björk Ólafsdóttir skrifar

Landbúnaðarstefna fyrir Ísland er í mótun og það er vel. Matvælastefna var mótuð nýlega og má ljóst vera að við ætlum okkur stóra hluti í matvælaframleiðslu. Öryggi matvæla er sett á oddinn, og markmiðið er að öll matvælaframleiðsla verði sjálfbær fyrir árið 2030. Á næstu dögum liggur fyrir Umhverfisstofnun að afgreiða umsókn ORF Líftækni frá því 28. janúar sl um hvort sleppa megi erfðabreyttum lífverum út í umhverfið í tilraunaræktun. Sem dæmi skoða Norðmenn nú heildstætt áhrif af erfðatækninni, áhættu sem hún felur í sér fyrir heilsu fólks og umhverfi, siðferðisleg álitamál og hvernig þróa þarf lagaumhverfið til að fyrirbyggja óæskileg áhrif hennar m.a. á landbúnað. Þar á ekki að ana að neinu og nefnd á vegum hins opinbera á að skila niðurstöðum á miðju næsta ári.

Landbúnaðarstefna í mótun

Þegar kemur að landbúnaði er samhljómur um að leiðin áfram sé að draga úr notkun á skordýra- og illgresiseitri og tilbúnum áburði, einnig er mikilvægt að virkja hringrás næringarefnanna og gæta að dýravelferð og líffræðilegri fjölbreytni. Um þetta er ekki deilt. Sem mælikvarða á almenna þróun í þessa átt ætlar Evrópusambandið að draga úr notkun á eiturefnum um 50% á næstu 9 árum, og tilbúnum áburði um 20% og í þeirri viðleitni að auka hlutdeild lífrænnar ræktunar í 25% af ræktarlandi árið 2030. Árið 2030 er mikilvægur tímapunktur í vinnu flestra landa sem nú breyta kerfum sínum markvisst til að bregðast við hinni alvarlegu stöðu sem uppi er í loftslagsmálum og það er aðkallandi að snúa þróuninni við.

Til að matvælaframleiðendur geti boðið matvæli í hæsta gæðaflokki þarf landbúnaðurinn að starfa í traustri umgjörð. Úrvals hráefni verður ekki boðið úr mengaðri jörð. Matvælaframleiðsla á allt sitt undir trausti neytenda og hugmyndum um hreina matvælaframleiðslu. Gildir þá einu um hvort sé að ræða gagnvart neytendum á heimamarkaði, gagnvart útlendingum í gegnum ferðaþjónustuna eða útflutning. Hér hefur gengið vel og neytendur bera almennt traust til íslenskrar matvælaframleiðslu. Þessi ímynd er hins vegar ekki sjálfsögð. Því megum við aldrei gleyma.

Á að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið ?

Umhverfisstofnun stendur nú frammi fyrir því verkefni að afgreiða umsókn um leyfi ORF Líftækni til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti. Um er að ræða endurtekna tilraun frá árinu 2009, að því er virðist, en tilgangurinn er að kanna hvort hægt sé að lækka framleiðslukostnað fyrirtækisins á frumuvökum (sérvirkum prótínum sem plantan framleiðir í fræinu) sem fyrirtækið hyggst selja til framleiðenda gervikjöts á alþjóðlegum markaði.

Um slíkar umsóknir gilda lög um erfðabreyttar lífverur no 18/ 1996 og er markmið laganna m.a. þetta: „Tryggja skal að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við varúðarregluna og grundvallarregluna um sjálfbæra þróun.”

Í gagnrýni sem borist hefur frá ýmsum félagasamtökum í formi umsagna hefur verið bent á að auðvitað er ekki hægt að fyrirbyggja að hið erfðabreytta efni berist út fyrir ræktunarreitinn, fuglar og smádýr geta lagt sér það til munns og borið áfram. Útilokað er að verjast því þegar plönturnar eru komnar út undir bert loft, varðar með netum sem geta rifnað eða losnað, að efnið berist út í umhverfið. Umsagnaraðilar benda á að umhverfisáhættumat er takmarkað, ekki hafa verið rannsökuð langtímaáhrif á jarðveg, heilsu dýra og áhrif þess að það berist inní fæðukeðjuna, en í Gunnarsholti fer einnig fram umtalsverð ræktun á fóðri. Bent er á að óljóst er hver beri ábyrgð á ræktuninni, en það fyrirkomulag sem kynnt er í umsókn er einstakt m.v. þau leyfi sem veitt hafa verið annars staðar í Evrópu, sem eru aðeins 5 talsins og öll á höndum háskóla og rannsóknarstofnana sem vakta staðina daglega og bera ábyrgð á þeim.

Í íslenska tilfellinu eru tvær ríkisstofnanir fengnar til ræktunarinnar, Landgræðslan ætlar að leigja ORF land til ræktunar og Landbúnaðarháskólinn að lána tæki og starfsfólk. Í lögunum er talað um að „Sá sem ábyrgð ber á afmarkaðri notkun, sleppingu og dreifingu eða markaðssetningu erfðabreyttra lífvera samkvæmt lögum þessum er skaðabótaskyldur vegna tjóns sem af hlýst berist þær út í umhverfið, án tillits til þess hvort tjón verði rakið til saknæms hátternis eða ekki.” Á ORF Líftækni að geta velt þessari ábyrgð yfir á stofnanir landbúnaðarins?

Í umsókn ORFS er því lýst að ætlunin sé að úða illgresiseitri, tilbúnum áburði og sveppavarnarefnum í þrígang yfir ræktunartímann. Í vöktunaráætlun er tilgreint að svæðið verði úðað með Roundup, til að fyrirbyggja að erfðabreyttar plöntur dreifi sér, komi til óhappa. VOR – Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap telur í umsögn sinni óásættanlegt að slík efnanotkun sé fylgifiskur tilraunaræktunarinnar. Enda varla í takt við nútímaáherslur sem að ofan er lýst, slík efnanotkun í landbúnaði hefur neikvæð áhrif á umhverfið t.d. með hættu á mengun grunnvatns auk þess sem slík efni skolast út í sjó á endanum. Umhverfisstofnun hefur margoft talað fyrir minni efnanotkun og varar við „kokteiláhrifum” af hinum ýmsu efnum sem í notkun eru í nútímasamfélagi.

Samkrull við stofnanir landbúnaðarins

Svo aftur sé komið að staðsetningu og forsendum tilraunarinnar. Verandi í Gunnarsholti er návígi við matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu og hina ýmsu þjónustu við bændur á svæðinu óhjákvæmilegt. Eitt framsæknasta svínabú landsins leigir mikið akurlendi af Landgræðslunni þar sem ræktað er hráefni (bygg) í svínafóður í stórum stíl. Áhyggjur eru uppi um að það teljist varhugavert að rækta líka erfðabreytt bygg í Gunnarsholti, bæði vegna nálægðar við ræktun fyrir svínabúið og eins vegna hættu á að erfðabreytt efni úr tilrauninni berist yfir á kornakrana og þaðan með vélum sem fluttar eru út fyrir Gunnarsholt.

Fórnarkostnaðurinn er m.a. sá að á meðan stofnanir ríkisins þjóna einkafyrirtæki á allt öðru sviði en þær starfa sjálfar á (líftækni) munu þær ekki verja sömu kröftum í uppbyggingu á þeim sviðum landbúnaðarins þar sem brýn úrlausnarefni bíða. Þeim kröftum verður því ekki varið í vinnu í samræmi áherslur matvælastefnu og þeirri landbúnaðarstefnu sem lönd Evrópu eru að setja sér. Eða hvað? Væri ekki frekar að efla aðrar rannsóknir í samræmi við stefnumál í átt að hringrásarhugsun, lífrænum landbúnaði hvar t.d. vantar áþreifanlega rannsóknir og ráðgjöf á lífrænum áburðargjöfum, ræktun belgjurta og eflingu á ræktun almennt. Er ræktun erfðabreyttra plantna utanhúss samrýmanleg þeirri stefnu að landið nýti að fullu sína styrkleika sem felast í heilbrigðri, traustri og sannfærandi umgjörð um sína matvælaframleiðslu?

Ísland – land án erfðabreyttra lífvera?

Það að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúru Íslands er stórt skref sem ætti að vekja upp margar spurningar. Neytendur víða um heim hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum af neyslu erfðabreyttra matvæla á heilsu, þær áhyggjur eru rökstuddar með niðurstöðum langtíma rannsókna en einnig siðferðilegri afstöðu til náttúrunnar. Mörg svæði og sveitarfélög í Evrópu og víðar hafa gripið til þess ráðs að lýsa sig sem „svæði án erfðabreyttra lífvera.” Allt Sviss er t.a.m. skilgreint sem slíkt. “GMO free” er þar fyrir utan álitinn gæðastimpill fyrir matvæli t.a.m. í Bandaríkjunum, en þennan stimpil hefur Ísland í dag og hann er mikils virði.

Í samevrópskri löggjöf þarf auk þess að huga að því fordæmi sem gefið er með því að opna á slíka ræktun hér á landi sem væntanlega er gerð með það fyrir augum að hefja hér á landi stórfellda útiræktun undir berum himni en leyfi til markaðssetningar er háð leyfi skv Evróputilskipun og er gefið út í Brüssel. Munu alþjóðleg fyrirtæki sjá sér hag í að sækja um leyfi til útiræktunar á Íslandi á erfðabreyttum lífverum?

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Hér er farið af stað að ókönnuðu máli, án fullnægjandi umræðu við hagaðila og sérfræðinga af þeirri vandvirkni sem staðan í umhverfismálum gerir kröfu um. Hér má ekki fórna ímynd matvælaframleiðslunnar á Íslandi fyrir hagsmuni eins fyrirtækis. Best fer á því að rækta hinar erfðabreyttu plöntur undir þaki þar sem umsækjandi hefur stjórn á öllum þáttum, tryggir öryggi og ber ábyrgðina.

Höfundur er formaður VOR – Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×