Handbolti

Fyrrum mark­manns­þjálfari Ís­lands orðaður við Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tomas Svensson [t.v.] er orðaður við stöðu markmannsþjálfara hjá Barcelona.
Tomas Svensson [t.v.] er orðaður við stöðu markmannsþjálfara hjá Barcelona. Vísir/Andri Marinó

Tomas Svensson, fyrrverandi markmannsþjálfari íslenska handboltalandsliðsins, er nú orðaður við stöðu markmannsþjálfara hjá spænska stórveldinu Barcelona. Það var spænska sjónvarpsstöðin Onze sem greindi upphaflega frá.

Svensson lék með Börsungum á sínum tíma og er því öllum hnútum kunnugur í Katalóníu. Hann hefur undanfarin ár gegnt stöðu markmannsþjálfara hjá Magdeburg í Þýskalandi en samningur hans þar rennur út í sumar. Talið er að hann gæti fært sig um set og haldið til Barcelona á nýjan leik.

Svensson starfaði með Guðmundi Guðmundssyni er sá síðarnefndi þjálfaði danska landsliðið. Þegar Guðmundur tók við íslenska liðinu þá fylgdi Svenson með. Hann sagði starfi sínu svo lausu eftir HM í Egyptalandi og er í dag markmannsþjálfari sænska landsliðsins ásamt því að starfa hjá Magdeburg.

Svensson stal fyrirsögnunum á HM í Egyptalandi þegar hann sagði að læknar íslenska landsliðsins hefðu ekki fengið að skoða Aron Pálmarsson, leikmann Barcelona. Aron lék ekki með íslenska liðinu á HM vegna meiðsla.

Sá sænski ku hafa hringt í Aron og þeir leyst málin í kjölfarið. Það ætti því ekki að anda köldu á milli þeirra fari svo að Svensson komi inn í þjálfarateymi Börsunga.


Tengdar fréttir

Aron sagður halda kyrru fyrir í Barcelona

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er sagður hafa gert samkomulag við Barcelona um að spila áfram með liðinu á næstu leiktíð.

„Trúnaðarbrestur hjá Tomasi Svensson“

Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson furða sig á ummælum Tomasar Svensson, markvarðaþjálfara íslenska handboltalandsliðsins, um meiðsli Arons Pálmarssonar sem er ekki með á HM í Egyptalandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.