Handbolti

Aron segir að Tomas Svensson hafi hringt strax í sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins og algjör lykilmaður í liðinu.
Aron Pálmarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins og algjör lykilmaður í liðinu. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson segir það vera erfið staða fyrir sig að sitja meiddur heima og geta ekki hjálpað íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handbolta.

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hefur farið yfir hlutina með Tomasi Svensson, aðstoðarþjálfara íslenska liðsins, vegna ummæla Svíans um Aron í viðtalinu við Staffan Olsson á dögunum.

„Þetta var náttúrulega mjög skrítið verð ég að segja, að vakna við þetta í gær. Hann [Tomas Svensson] hringdi náttúrulega í mig um leið og baðst afsökunar. En ég auðvitað gekk á hann og spurði hann hvað honum gengi til, sagði Aron Pálmarsson í viðtali við Ríkisútvarpið.

„Í rauninni er það sem kemur út úr þessu að það var bara samskiptaleysi hjá þeim, þjálfurunum og þeirra innan HSÍ. Það er í rauninni ekkert gruggugt í gangi,“ segir Aron sem segir að Brynjólfur Jónsson hafi verið með í ráðum síðan að þetta gerist. Brynjólfur hefur einnig verið í góðu sambandið við læknana hjá Barcelona.

„Svo flýg ég heim daginn eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hitti Binna síðan daginn eftir það. Þetta mál er í rauninni bara í meira lagi óheppilegt og skrítið. Það er enginn misskilningur í gangi. Þetta í rauninni bara samskiptaleysi,“ sagði Aron.

Aron segist vera kominn með þykkan skráp enda búinn að vera í sviðsljósinu lengi.

„Það er mjög erfitt að sitja undir slíku. Maður er fyrirliði og prímus mótór í þessu liði, þannig það er alltaf smjattað á öllu og maður er orðinn vanur því. En það er náttúrulega nógu erfitt að sitja heima og þurfa að horfa á þetta í staðinn fyrir að vera að spila. Og erfitt að vera í þessum meiðslum. Sérstaklega svona meiðslum, sem eru alvarleg,“ sagði Aron í þessu viðtali á RÚV.

Aron Pálmarsson talaði líka um það að hann muni alltaf gefa kost á sér svo framarlega sem líkaminn leyfi. Hann veit heldur ekki hvenær hann mun geta byrjað að spila aftur eftir þessi meiðsli sem halda honum frá HM í Egyptalandi.

Eins og kom fram á Vísi þá er núna hægt að hlusta á það sem Tomas Svensson sagði nákvæmlega í þessu viðtali. Þar talaði hann ekki bara um að læknarnir hafi ekki fengið að skoða Aron heldur að inn í þetta blandist samningamál Arons og Barcelona sem og að möguleikar íslenska landsliðsins á verðlaunum hafi ekki verið miklir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×