Innlent

Endurskipuleggja fjármál Strandabyggðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, þegar þeir skrifuðu undir samkomulagið í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, þegar þeir skrifuðu undir samkomulagið í dag. Stjórnarráðið

Sveitarfélagið Strandabyggð fær þrjátíu milljónir króna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga með samkomulagi sem það hefur gert við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um fjárhagslega endurskipulagningu þess. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið þungur að undanförnu.

Samkomulagið miðar að því að unnt verði að ná jafnvægi í rekstri Strandabyggðar og að sveitarfélagið standist fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Greining endurskoðunarfyrirtækisins KPMG í fyrra leiddi í ljós að venjubundinn rekstur sveitarfélagsins stæði ekki undir skuldbindingum þess og að verulegur halli væri fyrirséður á rekstrinum.

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir viðræðum við ríkið um samkomulag um fjármál sveitarfélagsins í byrjun mars. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga mælti með því að ráðuneytið gerði samkomulag við Strandabyggð.

„Markmið samkomulagsins eru að stuðla að markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar, skapa grundvöll fyrir fjárhagsáætlanagerð og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2025 og móta verkefnaáætlun sveitarstjórnar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins um samkomulagið.

Óháður ráðgjafi verður ráðinn til að vinna með sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins að fjárhagslegri greiningu og markmiðasetningu samkvæmt samkomulaginu. Sveitarstjórnin skuldbindur sig einnig til að vinna að hagræðingu í rekstri og draga úr rekstrarútgjöldum eins og kostur er, jafnframt því sem leitast verður við að auka tekjur. Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á kostum sameiningar við önnur sveitarfélög og fjárhagsleg áhrif sameiningar.

Strandabyggð varð til við sameiningu Hólmavíkur- og Broddaneshrepps á Vestfjörðum árið 2006.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×