Körfubolti

„Spilling og valdníðsla af hálfu ÍSÍ“

Sindri Sverrisson skrifar
Vésteinn Sveinsson, einn af þjálfurum Aþenu, og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ funda væntanlega á morgun.
Vésteinn Sveinsson, einn af þjálfurum Aþenu, og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ funda væntanlega á morgun. Samsett/Aþena og ÍSÍ

„Ég bara trúi því ekki að stofnun með þetta vald skuli segja svona í fjölmiðlum,“ segir Vésteinn Sveinsson, körfuboltaþjálfari hjá Aþenu, um þær ástæður sem framkvæmdastjóri ÍSÍ gaf fyrir því að ekki væri búið að staðfesta lög félagsins.

Börnin sem æfa undir handleiðslu Vésteins, Brynjars Karls Sigurðssonar og annarra þjálfara Aþenu hafa keppt undir merkjum Ungmennafélags Kjalnesinga síðustu misseri. Í hópnum eru meðal annars stelpur sem léku undir handleiðslu Brynjars hjá Stjörnunni og ÍR, og voru aðalsöguhetjurnar í heimildarmyndinni Hækkum rána sem sýnd var í febrúar.

Aþena þarf leyfi ÍSÍ til að verða fullgilt íþróttafélag og geta keppt undir eigin nafni. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði við Vísi að málið hefði tafist vegna þess að Aþena væri einnig nafn á íþróttaakademíu. ÍSÍ samþykki ekki fyrirtæki sem íþróttafélag.

Líney sagði einnig að eftir sýningu heimildarmyndarinnar Hækkum rána, í febrúar, hefði ÍSÍ ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar Aþenu. Umsóknin hafði þá þó staðið óafgreidd síðan í nóvember, og á heimasíðu Aþenu segir að félagið hafi byrjað umsóknarferlið í ágúst 2019 en ferlið gengið afar hægt vegna afskiptaleysis ÍSÍ.

„Þetta er dálítið ævintýraleg röksemdafærsla því að myndin kom út fyrir sex vikum. Hvað voru þau að gera hina 17 mánuðina?“ spurði Vésteinn í viðtali við Harmageddon í gær.

Vésteinn segir að ÍSÍ hafi nú boðað forsvarsmenn Aþenu á fund kl. 13 á morgun en er ekki sérlega vongóður um að niðurstaðan verði að samþykkja umsókn félagsins.

„ÍSÍ hefur ekki talað við okkur“

Af svörum Líneyjar að dæma virðast þjálfunaraðferðir Brynjars Karls, sem er titlaður yfirþjálfari Aþenu á heimasíðu félagsins, valda ÍSÍ áhyggjum, sem og sú staðreynd að hann hafi verið rekinn úr starfi hjá ÍR og Stjörnunni. ÍSÍ hafi því viljað taka sér tíma til skoðunar og upplýsingaöflunar.

„Ef þau eru að afla sér upplýsinga er ég þá líka mjög forvitinn að vita hvar þau eru að gera það. ÍSÍ hefur ekki talað við okkur. Það eru átta þjálfarar hjá félaginu og fullt af foreldrum, og það hefur ekki verið talað við neinn. Ef að menn ætla að vera með áhyggjur af alls konar hlutum, en ætla svo ekki að skoða það… ég skil ekki hvert „pointið“ er,“ sagði Vésteinn í Harmageddon.

Vésteinn segir að miðað við svör Líneyjar sé ekki ástæða til bjartsýni fyrir fundinn á morgun. „Þau ætluðu ekki að láta þetta fara í gegn en svo um leið og þetta kemur í fjölmiðla þá fáum við fund. Við erum búin að biðja um fund í eitt ár,“ sagði Vésteinn.

„Þetta er hálfógeðslegt“

„Ég sé þetta ekkert öðruvísi en sem spillingu og valdníðslu af hálfu ÍSÍ,“ sagði Vésteinn og bætti við:

„Vanvirðingin við foreldrana og alla krakkana hjá okkur sem vilja spila fyrir sitt félag… þetta bitnar náttúrulega á endanum á þeim. Þetta er hálfógeðslegt.

Við erum með foreldra og krakka sem að keyra upp á Kjalarnes í 30 mínútur hvora leið. Þarna eru kennarar, lögreglufólk, háskólaprófessorar og alls konar fólk. Það á að afskrifa þetta fólk einhvern veginn af því að Brynjar er umdeildur.

Markmið okkar er bara að fá félagið samþykkt. Annað hvort fáum við það samþykkt á þessum fundi eða þá að við fáum það mjög skýrt fram hvað þarf að gerast samkvæmt lögum ÍSÍ, til að fá félagið samþykkt.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.