Innlent

Frumstæðasta kvika sem komið hefur upp í 7000 ár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir erfitt að segja til um hversu lengi gosið í Geldingadal mun standa.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir erfitt að segja til um hversu lengi gosið í Geldingadal mun standa. Vísir/Vilhelm

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir niðurstöður rannsókna á hraunsýnum úr eldgosinu í Geldingadal mjög athyglisverðar og spennandi.

Niðurstöðurnar sýna að kvikan sé sennilega sú frumstæðasta sem komið hefur upp á landi á Íslandi síðustu 7000 árin eða svo. Þá sýna mælingar að upptök kvikunnar eru á margra kílómetra dýpi.

„Þetta er mjög líkt því sem kemur á úthafshryggjunum og síðan sýna mælingarnar að upptakadýpi er kannski á 17 til 20 kílómetrum. Þá erum við komin undir jarðskorpuna, þetta kom beint upp þaðan. Þá þýðir þetta það að þetta er öðruvísi en í megineldstöðinni í Grímsvötnum og Kötlu þess vegna eða Heklu eða öðru þar sem er kvikuhólf í jarðskorpunni þar sem kvikan safnast í og breytir svolítið og mótast,“ sagði Magnús Tumi í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Kvikan væri þannig að koma beint að neðan, eins og Magnús Tumi orðaði það, og djúpt að.

„Og það er þannig sem dyngjurnar stóru, og sumar litlar, mynduðust, sérstaklega framan af eftir að jökla leysti og fram eftir nútíma sem kallað er.“

Spurður að því hversu lengi gosið gæti varað sagðist Magnús Tumi ekki vita það. Hann benti þó á að flest gos standi ekki lengur, kannski vikum saman, en aftur á móti væri þetta gos lítið, stöðugt og kvikan að koma djúpt að.

„Og það er vísbending um að þessi kvika, þetta eru oft frekar stórar bráðir sem kallað er, mikið pláss, þess vegna eru ákveðnar líkur á og við ættum ekki að láta koma okkur á óvart að þetta standi í langan tíma. En eins og þið heyrið, ég veit þetta ekki, ég er að horfa á þessar líkur,“ sagði Magnús Tumi. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.