Körfubolti

101 árs nunna í sviðsljósinu þegar Marsfárið byrjaði með óvæntum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jean Dolores Schmidt færir Loyola skólaliðinu lukku að ofan í Marsfárinu.
Jean Dolores Schmidt færir Loyola skólaliðinu lukku að ofan í Marsfárinu. Getty/Kevin C. Cox

Marsfárið er byrjað í Bandaríkjunum og eins og vanalega verða oft mjög óvænt úrslit í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans. Nú stefnir í annað ævintýri hjá litla Loyola skólanum.

Strákunum í Loyola tókst nefnilega að slá út „besta“ liðið en Illinois átti engin svör í 71-58 tapi á móti Loyola. Illinois varð þar með fyrsta liðið sem fellur úr leik af þeim sem var í fyrsta sæti í styrkleikaröðun í sínum sextán liða hluta úrslitakeppninnar.

Það voru samt ekki leikmenn Loyola skólans sem stálu fyrirsögnunum í bandarískum fréttamiðlum heldur frekar systir Jean.

Það eru fjögur ár síðan að nunnan Jean Dolores Schmidt stal senunni í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans þegar skólinn hennar Loyola frá Chicago komst alla leið í hóp hinna fjögurra fræknu.

Nú er Jean Dolores orðin 101 árs gömul en hún lét sig ekki vanta í gær og flutti ræðu inn í klefa fyrir leikinn. Hún er verndari liðsins og meira en það.

Jean Dolores er nefnilega þekkt fyrir mikinn körfuboltaáhuga sinn sem og þekkingu því hún hefur verið að leikgreina leiki hjá skólanum.

Jean Dolores fer nú um í hjólastól en hún er búin að klára báðar bólusetningarnar við kórónuveirunni og var komin til Indianapolis í gær til sýna strákunum sínum stuðning.

Það efast enginn að góða ára hennar og körfuboltavit á heilmikið í árangri strákanna inn á vellinum enda gott að fá guðdómlegan stuðning á úrslitastundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×