Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Valur 74-69 | Frábær sigur Blika gegn meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanney Lind Thomas og stöllur hennar í Breiðabliki unnu góðan sigur á Íslandsmeisturum Vals í kvöld.
Fanney Lind Thomas og stöllur hennar í Breiðabliki unnu góðan sigur á Íslandsmeisturum Vals í kvöld. Vísir/Vilhelm

Breiðablik stöðvaði sigurgöngu Vals þegar liðin mættust í Smáranum í Domino's deild kvenna í kvöld. Blikar unnu sanngjarnan sigur, 74-69.

Blikar voru yfir nánast allan leikinn en Valskonur komu með kröfugt áhlaup í 4. leikhluta þar sem heimakonur virtust ætla að fara á taugum. En þær stóðust pressuna og Jessica Lorea fór langt með að tryggja þeim sigurinn þegar hún setti niður þriggja stiga skot þegar fjórtán sekúndur voru eftir.

Hildur Björg Kjartansdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir léku ekki með Val vegna meiðsla og þá fékk Guðbjörg Sverrisdóttir höfuðhögg snemma leiks og kom ekki meira við sögu eftir það. Valskonur spiluðu ekki vel í kvöld en voru samt nálægt því að taka stigin tvö. Valur er áfram á toppi deildarinnar en Breiðablik í 6. sætinu.

Breiðablik var með frumkvæðið í fyrri hálfleik þótt munurinn væri aldrei mikill. Valskonur hittu skelfilega (32 prósent) en Blikum gekk illa að nýta sér það. Lykilmenn Vals náðu sér ekki á flug og ef ekki hefði verið fyrir gott framlag Ástu Júlíu Grímsdóttur hefði staða Íslandsmeistarana verið öllu verri en hún var.

Sóllilja Bjarnadóttir sá til þess að Breiðablik leiddi með sex stigum í hálfleik þegar hún setti niður ótrúlega þriggja stiga körfu undir lok 2. leikhluta. Hún virtist ekki átta sig hversu mikill tími var eftir og skotið var nokkuð glæfralegt en ofan í fór það og staðan 39-33, Blikum í vil, í hálfleik.

Breiðablik skoraði fyrstu stig seinni hálfleiks en Valur svaraði með átta stigum í röð og jafnaði, 41-41.

Þá kom frábær Lorea skoraði þá fimm stig í röð og átti stoðsendingu á Isabellu Ósk Sigurðardóttur sem kom Blikum sjö stigum yfir, 48-41.

Heimakonur héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og eftir fimm stig í röð frá Þórdísi Jónu Kristjánsdóttur komst Breiðablik fimmtán stigum yfir, 57-42. Þá var Ólafi Jónasi Sigurðssyni, þjálfara Vals, nóg boðið og hann tók leikhlé. Valskonur skoruðu sex af síðustu átta stigum 3. leikhluta og staðan að honum loknum var 59-48, Blikum í vil.

Breiðablik byrjaði 4. leikhlutann betur og komst fjórtán stigum yfir, 65-51, þegar Fanney Lind Thomas setti niður þrist. En þá lokaði Valur vörninni. Lorea var utan vallar með fjórar villur og án hennar áttu Blikar í miklum vandræðum í sókninni.

Valskonur saumuðu að Blikum og náðu forystunni, 66-67, er Eydís Eva Þórðardóttir setti niður þriggja stiga skot þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Það reyndist síðasta karfa Vals í leiknum.

Í stað þess að koðna algjörlega undan pressu Valskvenna reistu Blikar sig við og gerðu nóg til að vinna leikinn. Lorea kom Breiðabliki yfir, 72-69, með þristi þegar fjórtán sekúndur voru eftir.

Þriggja stiga skot Kiönu Johnson geigaði svo og Iva Georgieva kláraði leikinn endanlega á vítalínunni. Lokatölur 72-69, Breiðabliki í vil.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru betra liðið nær allan tímann en virtust ætla að kasta sigrinum frá sér á lokakaflanum. Þær stóðust þó lokaáhlaup Valskvenna og Lorea kláraði svo leikinn.

Vörn Blika var mjög sterk í leiknum og margir leikmenn lögðu hönd á plóg á báðum endum vallarins.

Hverjar stóðu upp úr?

Lorea reyndist Blikum ómetanleg á lokakaflanum. Hún skoraði tuttugu stig og gaf þrettán stoðsendingar. Iva Georgieva var mjög góð í fyrri hálfleik þar sem hún skoraði fjórtán af tuttugu stigum sínum. Fanney Lind spilaði hörkuvörn á Helenu Sverrisdóttur og Íslandsmethafinn Isabella Ósk Sigurðardóttir tók sextán fráköst. Þá kom Þórdís Jóna Kristjánsdóttir með ellefu stig af bekknum.

Ásta Júlía átti flottan fyrri hálfleik þar sem hún skoraði tíu af tólf stigum sínum. Hún lenti í villuvandræðum í seinni hálfleik og fékk sína fimmtu villu um miðjan 4. leikhluta. Eydís Eva átti góða spretti og var stigahæst Valskvenna með þrettán stig.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Vals var afar slakur fyrstu þrjá leikhlutana. Liðið hitti afar illa fyrir utan, aðeins 23 prósent, og lykilmenn fundu sig ekki. Helena og Johnson skoruðu báðar ellefu stig en hittu aðeins samtals úr sex af 28 skotum sínum.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir beggja liða eru á útivelli. Á laugardaginn fara Valskonur í Vesturbæinn og mæta þar KR-ingum. Daginn eftir sækja Blikar Fjölniskonur heim.

Jessica: Liðið studdi við bakið á mér

Jessica Lorea var stigahæst á vellinum með tuttugu stig.vísir/vilhelm

Það var að vonum létt yfir Jessicu Lorea, leikmanni Breiðabliks, eftir sigurinn á Val í kvöld. Hún skoraði sigurkörfu Blika þegar fjórtán sekúndur voru eftir af leiknum.

„Við ætluðum að vera einbeittar og framkvæma sóknina vel. Við þekkjum alla möguleikana sem við höfum út úr leikkerfunum og eigum að taka opin skot ef þau bjóðast,“ sagði Jessica eftir leikinn.

„Liðið treystir þeim sem er með boltann í höndunum og ég hugsaði að ég tæki bara skotið. Liðið studdi við bakið á mér og þetta var rétt á þessu augnabliki.“

Jessica skoraði tuttugu stig og gaf þrettán stoðsendingar í leiknum í kvöld. Hún kvaðst ánægð með frammistöðuna gegn Íslandsmeisturunum.

„Við höfum lagt hart að okkur á æfingum síðustu vikuna til að undirbúa okkur við að spila gegn frábæru liði eins og Val,“ sagði Jessica. „Við ætluðum bara að berjast allt til loka og ég held við höfum gert það.“

Jessica sagði að liðsheild Blika hafi verið sterk í leiknum í kvöld.

„Við spiluðum eins og lið. Það er svo góður andi í liðinu, innan vallar sem utan. Við héldum alltaf áfram. Það er langt síðan við áttum svona stóran leik og okkur fannst við þurfa að vinna hann. Við börðumst allan leikinn eins og við ætluðum að gera,“ sagði Jessica að lokum.

Ólafur Jónas: Blikar voru miklu betri en við

Ólafur Jónas Sigurðsson var hreinskilinn í svörum eftir leik.vísir/vilhelm

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ekki sáttur með frammistöðu síns liðs gegn Breiðabliki í kvöld.

„Blikar áttu þetta miklu meira skilið og voru miklu betri en við í þessum leik,“ sagði Ólafur eftir leikinn.

Valur var í eltingarleik nánast allan tímann en komst yfir, 67-68, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Þá hrökk sókn liðsins aftur í baklás.

„Sara (Líf Boama) kom inn á og hleypti smá lífi í þetta og kom okkur í færi en Blikarnir eiga allt hrós skilið. Þær spiluðu miklu, miklu betur heldur en við og áttum sigurinn skilið,“ sagði Ólafur.

Guðbjörg Sverrisdóttir meiddist strax á 3. mínútu og kom ekkert meira við sögu eftir það.

„Ég veit bara að hún er uppi á læknavakt núna. Hún fékk höfuðhögg,“ sagði Ólafur. Auk Guðbjargar léku Hildur Björg Kjartansdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir ekki með Val í kvöld.

„Við verðum samt að spila betur,“ sagði Ólafur. „Við eigum að vera með marga góða leikmenn á bekknum og eigum að spila betur hvort sem það vantar einhverjar eða ekki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira