Handbolti

Sýna Alfreð mikinn stuðning: Þú ert frábær og þessi árás á þig viðbjóðsleg

Sindri Sverrisson skrifar
Joachim Löw og Martina Voss-Tecklenburg hafa látið vita af því hversu ömurlegt þeim þótti bréfið sem Alfreð Gíslason fékk sent til sín.
Joachim Löw og Martina Voss-Tecklenburg hafa látið vita af því hversu ömurlegt þeim þótti bréfið sem Alfreð Gíslason fékk sent til sín. Getty

Joachim Löw og Martina Voss-Tecklenburg, landsliðsþjálfarar Þýskalands í fótbolta, eru á meðal þeirra sem hafa sent Alfreð Gíslasyni stuðningskveðju eftir hótunarbréfið sem honum barst í gær.

Alfreð fékk sent hótunarbréf tveimur dögum eftir að hafa stýrt þýska karlalandsliðinu í handbolta áfram á Ólympíuleikana í Tókýó. Í bréfinu stóð að Þjóðverjar vildu hafa þýskan landsliðsþjálfara og að hann ætti að hætta ellegar hljóta verra af.

„Alfreð, ég og fjöldi fólks stöndum með þér,“ segir Löw á Twitter-síðu þýska karlalandsliðsins í fótbolta. 

„Þú ert frábær landsliðsþjálfari og við erum stolt af þér og þínu liði. Í Þýskalandi stöndum við fyrir samvinnu og samkennd, ekki sundrung. Vonandi finnst höfundur bréfsins og verður látinn svara til saka,“ segir Löw, sem stýrir Þýskalandi gegn Íslandi í undankeppni HM eftir átta daga.

Voss-Teklenburg tekur í sama streng og er ánægð með Alfreð að hafa birt bréfið: „Ég ber mikla virðingu fyrir því hvað þú ert opinskár og hugrakkur að láta vita af þessari hótun. Þessi hugleysisárás á þig er viðbjóðsleg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×