Alfreð birtir bréfið sjálfur á Instagram. Bréfið er skrifað í tölvu en Alfreð birtir jafnframt mynd af umslaginu og spyr hvort einhver kannist við rithöndina sem notuð er til að skrifa nafn hans og heimilisfang.
Í bréfinu stendur, í lauslegri þýðingu:
„Við erum öll þýsk og viljum hafa þýskan landsliðsþjálfara.
Heimskulegt látbragð þitt á hliðarlínunni fer í taugarnar á manni.
Ef þú segir ekki upp störfum þá munum við heimsækja þig og við skulum sjá hvað verður um húsið þitt þá. Við bíðum.“
Alfreð hefur búið í Þýskalandi frá því að hann tók við þjálfun Hameln árið 1997. Áður hafði hann búið í fimm ár í Þýskalandi á ferli sínum sem leikmaður.
„Fallegt bréf í póstinum í dag! Eftir nærri því 30 ár í Þýskalandi er þetta fyrsta hótunin sem mér berst í þessu frábæra landi,“ skrifar Alfreð á Instagram.
Alfreð hefur verið afar sigursæll sem þjálfari í Þýskalandi, sérstaklega þau ellefu ár sem hann stýrði Kiel. Hann hætti félagsliðaþjálfun 2019 og tók svo við þjálfun þýska landsliðsins í fyrra. Um helgina stýrði hann því til sætis á Ólympíuleikunum í Tókýó.