Innlent

„Vonandi fáum við einhverja viðvörun“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fréttamaður BBC sést hér ræða við Elísabetu Pálmadóttur, náttúruvársérfræðing.
Fréttamaður BBC sést hér ræða við Elísabetu Pálmadóttur, náttúruvársérfræðing.

BBC fjallar á vef sínum í dag um jarðskjálftahrinuna sem verið hefur viðvarandi á Reykjanesskaga síðastliðnar þrjár vikur. „Ísland skelfur vegna meira en 50 þúsund jarðskjálfta á þremur vikum“ er yfirskrift umfjöllunarinnar.

Birt er myndband á vefnum þar sem meðal annars er rætt við náttúruvársérfræðingana Bjarka Kaldalóns Friis og Elísabetu Pálmadóttur og jarðfræðinginn Helgu Torfudóttur.

Helga fer til dæmis með fréttamanni BBC, Jean Mackenzie, á Reykjanesskagann til að skoða það svæði þar sem virknin er mest.

„Síðan á miðnætti hafa mælst 1200 skjálftar. Á einni viku er eðlilegt að mæla á milli hundrað og 200 skjálfta,“ segir Bjarki.

„Full af fólki hefur vaknað vegna skjálftanna og við höfum fengið nokkra skjálfta stærri en fimm svo þetta er mjög óvenjulegt,“ segir Elísabet og bætir við að hún telji ekki neinn muni eftir álíka atburði.

Mackenzie ræðir einnig við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem segir að ástandið streituvaldandi og þá meira streituvaldandi fyrir fólkið sem býr nálægt upptökum skjálftanna.

Elísabet segir ekki vitað hversu mikla viðvörun vísindamennirnir muni fá ef það kemur til eldgoss.

„Vonandi fáum við einhverja viðvörun en þetta gæti orðið mjög lítið merki,“ segir Elísabet.

Mínútur, klukkutímar?

„Mínútur, já. Þess vegna tökum við þetta allt svo alvarlega.“

Umfjöllun BBC má sjá hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×