Körfubolti

Curry og félagar náðu að kæla niður toppliðið

Sindri Sverrisson skrifar
Stephen Curry í kröppum dansi á milli þeirra Derrick Favors og Royce O'Neale í San Francisco í nótt.
Stephen Curry í kröppum dansi á milli þeirra Derrick Favors og Royce O'Neale í San Francisco í nótt. AP/Jeff Chiu

Besta lið NBA-deildarinnar í vetur, Utah Jazz, varð að sætta sig við tap gegn Stephen Curry og félögum í Golden State Warriors í gær, 131-119.

Golden State hafði tapað fjórum leikjum í röð en tókst að komast á beinu brautina í gær. Utah hefur þar með tapað tíu leikjum á leiktíðinni en unnið 28 og er enn með besta sigurhlutfallið. Golden State er í 9. sæti vesturdeildar með 20 sigra og 19 töp.

Draymond Green náði þrefaldri tvennu en hann skoraði 11 stig, tók 12 fráköst og gaf 12 stoðsendingar auk þess að stela boltanum fjórum sinnum. Curry var hins vegar stigahæstur með 32 stig, þar af sex þriggja stiga körfur, og níu stoðsendingar. Andrew Wiggins skoraði 28 stig.

„Núna snýst þetta um hvernig við bætum ofan á þetta. Þetta gæti orðið vendipunktur hjá okkur,“ sagði Green eftir sigurinn. Næsta verkefni Golden State er hins vegar strax í kvöld, gegn sjálfum meisturunum í Los Angeles Lakers.

Það dugði Utah ekki að Rudy Gobert skildi rífa niður heil 28 fráköst í leiknum, og skora 24 stig. Golden State var 33-22 yfir eftir fyrsta leikhluta og þrettán stigum yfir eftir sveiflur í öðrum leikhluta, 67-54. Utah minnkaði muninn í eitt stig snemma í fjórða leikhluta en heimamenn áttu meira inni í lokin.

Úrslitin í gær:

  • Oklahoma 128-122 Memphis
  • Golden State 131-119 Utah
  • Philadelphia 134-99 San Antonio
  • Orlando 97-102 Miami
  • Atlanta 100-82 Cleveland
  • Houston 107-134 Boston
  • Minnesota 114-112 Portland
  • Chicago 118-95 Toronto
  • New Orleans 135-115 LA Clippers
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×