Skoðun

Hvar er verndin?

Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir skrifar

Í gegnum allar áætlanir, sáttmála og stefnur sem snúa að aðgerðum og hlutverki yfirvalda í baráttunni við mansal er rauður þráður: Að sækja brotafólk til saka og veita þolendum vernd.

Þennan þráð má þannig finna í skjali dómsmálaráðuneytisins um „Áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu,“ sem kom út árið 2019. Þennan þráð má finna í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi, og enn fremur íPalermó-sáttmálanum sem hefur verið fullgilt samkomulag hér á Íslandi í tíu ár. Okkur ber að vernda þolendur mansals.

Nú hyggst dómsmálaráðherra breyta mansalsákvæði hegningarlaga. Í frumvarpi ráðherrans er ætlunin að rýmka heimildir ákvæðisins, bæði til þess að auka vernd þolenda mansals og til að auka líkur á að brotafólk sé sótt til saka. Eða svo segir í það minnsta á vef Alþingis. Hins vegar er ekki augljóst hvernig fyrirhuguð breyting mun í raun vernda þolendur.

Það verður ekki af frumvarpinu tekið að það rýmkar vissulega heimildir til að refsa illvirkjum, sem er jú mikilvægur liður í aðgerðum gegn mansali. Aftur á móti er ekkert í frumvarpinu sem bendir til sérstakra aðgerða til að verja þolendur, ekki frekar en í núverandi lagabókstaf. Enn og aftur er áherslan á aðgerðir sem seint verður hægt að flokka sem beina vernd.

Oftar en ekki eru þolendur mansals hælisleitendur, flóttafólk, týnt fólk, óskráð fólk. Fólk sem er að flýja ofbeldi, nauðganir og ólýsanlegan hrylling. Fólk sem þráir lausn úr aðstæðum sínum. Fólk sem þarf vernd og okkur, sem siðmenntað og mannúðlegt samfélag, ber skylda til að veita þessa vernd.

Að sækja til saka einn mann hér eða þar hrekkur skammt þegar þolendum er síðan vísað á dyr og sendir aftur í gin kvalarans. Það kemur alltaf hrotti í hrotta stað. Því þarf alþjóðasamfélagið - Ísland þar með talið - að leggja meiri og sterkari áherslu á verndina sem þolendur eiga að fá. Þau þurfa að geta treyst á öruggt skjól og ekki skal gleyma að Alþingi, sem löggjafi þessa lands, hefur samþykkt þessa áherslu. Okkur ber að vernda þolendur mansals.

Höfundur er sitjandi þingkona Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×