Körfubolti

Dagný Lísa og hinar Kúrekastelpurnar fá að dansa í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Lísa Davíðsdóttir og félagar í Wyoming háskólaliðinu eru að uppskera mikið ævintýri þessa dagana.
Dagný Lísa Davíðsdóttir og félagar í Wyoming háskólaliðinu eru að uppskera mikið ævintýri þessa dagana. Twitter/@wyo_wbb

Dagný Lísa Davíðsdóttir og hinar Kúrekastelpurnar munu taka þátt í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans í ár eftir sigur í úrslitaleik Mountain West deildarinnar í nótt.

Wyoming Cowgirls unnu 56-53 sigur á Fresno State í úrslitaleiknum eftir að hafa verið sex stigum undir eftir fyrsta leikhlutann. Wyoming stelpurnar upplifðu ótrúlegt ævintýri í úrslitakeppninni í ár en þær komu inn í hana úr sjöunda sætinu.

Wyoming liðið vann annan leikhlutann 16-2 og hélt frumkvæðinu út leikinn. Dagný var í byrjunarliðinu en það munaði miklu um það að stigin af bekknum enduðu 22-0 fyrir Wyoming.

Íslenska körfuboltakonan Dagný Lísa Davíðsdóttir var með sjö stig og fimm fráköst á rúmum tuttugu mínútum í leiknum en var líka með 1 stoðsendingu, 1 stolinn bolta og 1 varið skot.

Með þessum sigri í nótt þá tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans og fá því að vera hluti af Marsæðinu. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem Wyoming verður með þar og aðeins í annað skiptið í sögu skólans.

„Ég er bara orðlaus núna,“ sagði þjálfarinn Gerald Mattinson eftir leikinn.

Það mun ekki koma í ljós fyrr en mánudaginn hverjir verða mótherjar Wyoming Cowgirls í fyrstu umferð NCAA úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×