Um­fjöllun og við­töl: Valur - ÍR 101-90 | Mikil­vægur sigur Vals

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Kristófer var ansi öflugur í kvöld.
Kristófer var ansi öflugur í kvöld. vísir/vilhelm

Valur vann ansi mikilvægan sigur í kvöld er liðið lagði ÍR á heimavelli í Domino's deild karla, 101-90, í leik sem var spennandi lengst af.

Bæði lið þurftu á sigrinum að halda en sérstaklega Valsmenn sem eygðu von á að komast ofar í töfluna eftir að Njarðvíkingar töpuðu fyrir Haukum fyrr í kvöld.

Valur byrjaði leikinn mun betur, komust í 17–7 og virtust mjög vel stemmdir, svo strax í kjölfarið byrjuðu þeir að tapa boltanum. ÍR-ingar gengu á lagið og skoruðu nokkrar körfur úr hraðaupphlaupum og voru yfir að loknum fyrsta leikhluta, 27-28. Tapaðir boltar Valsmanna reyndust dýrir allann leikinn og héldu ÍR mögulega lengur inni í leiknum en innistæða var fyrir.

Eftir þetta var jafnt á öllum tölum þó ÍR væru örlítið fyrir framan. Leikurinn var talsvert fyrir augað, sérstaklega þegar að þeir Jordan Roland hjá Val og Everage Richardson hjá ÍR voru með boltann. Roland skoraði 35 stig og Everage setti 26 stig og gaf 12 stoðsendingar.

Varnir liðana voru þó hriplekar bæði upp við körfuna og fyrir utan þriggja stiga línuna.

Það var ekki fyrr en í lokin að Valsmenn skelltu í lás varnarlega og breyttu stöðunni úr 82–82 og í 94-85. Á þessum kafla misstu ÍR taktinn og voru ekki að finna sína bestu sóknarmenn. Zvonko Buljan fékk á þessum tíma tvær sóknarvillur og tók vond skot, ekki alveg nógu gott. Þegar þarna var komið við sögu voru einungis 2:30 eftir og Valsmenn sigldu þessum leik þægilega heim. Lokatölur 101–90. Gríðarlega mikilvægur sigur heimamanna staðreynd.

Af hverju vann Valur?

Valur lét ekki mótlætið fara í taugarnar á sér. Það hefur gerst alltof oft á síðustu tveimur tímabilum að Valsmenn séu fljótir að láta mótlætið fara í taugarnar á sér. Það var ekki staðan í kvöld, þrátt fyrir tapaða bolta og það sem var oft á tíðum mjög stirður sóknarleikur gegn svæðisvörn Breiðhyltinga.

Jón Arnór Stefánsson steig líka upp í lokin og setti risastór skot sem teymdu liðið framúr og sköpuðu muninn sem að reiða baggamuninn að lokum.

Hverjir stóðu uppúr?

Jordan Roland var frábær í kvöld. Hann skoraði körfur í öllum regnbogans litum og þó hann hafi ekki endilega gert mikið annað þá er þetta akkúrat það sem Val hefur vantað. Mann sem getur sótt körfur upp úr litlu og engu. Hann setti 14 af 20 skotum sínum í leiknum.

Þá er vert að minnast á varnarleik Valsmanna í fjórða leikhluta, sérstaklega þá Kristófer Acox og Hjálmar Stefánsson sem unnu mjög gott dagsverk. Kristófer tók að auki heil 17 fráköst.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍR var slakur allann leikinn en þeir voru þó í jöfnum leik þegar það voru 5 mínútur eftir. Þá einhvernvegin fauk öll skynsemi út um gluggann hjá ÍR. Þeir hættu að finna Everage Richardson á góðum stöðum á vellinum og í staðinn var allur þeirra sóknarleikur stirður. Þá voru ÍR bersýnilega orðnir þreyttir, þeir spiluðu á fáum mönnum og hjálpaði þar ekki fjarvera Sigvalda Eggertssonar sem var veikur.

Hvað næst?

Það verður veisla í Vesturbænum næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20:15. Þá mæta Valsmenn í Frostaskjólið til þess að etja kappi við KR. Það verður gaman að sjá skorarana Tyler Sabin hjá KR og Jordan Roland hjá Val mætast.

ÍR fær Hött í heimsókn austan af Héraði í áhugaverðum leik sem fer fram á fimmtudag kl. 19:15.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.