Körfubolti

Hannes sjálfkjörinn og nálgast tuttugu ára afmæli

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes S. Jónsson með stjórnarmönnum eftir ársþingið 2019. Ársþing KKÍ eru haldin á tveggja ára fresti.
Hannes S. Jónsson með stjórnarmönnum eftir ársþingið 2019. Ársþing KKÍ eru haldin á tveggja ára fresti. kki.is

Hannes S. Jónsson er einn í framboði og því sjálfkjörinn sem formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Ársþing KKÍ fer fram um aðra helgi.

Hannes tók við sem formaður af Ólafi Rafnssyni heitnum í maí 2006. Ljóst er að hann verður formaður í að minnsta kosti tvö ár til viðbótar, eða fjögur ár ef að tillaga um breytingar á lögum KKÍ verður samþykkt á þinginu. Það er samkvæmt tilmælum FIBA um að kjörtímabil sé fjögur ár. Hannes næði þá að sitja sem formaður í að minnsta kosti nítján ár, eða til 2025.

Átta núverandi stjórnarmenn munu sitja áfram. Það eru þau Birna Lárusdóttir, Einar Karl Birgisson, Erlingur Hannesson, Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, Guðni Hafsteinsson, Herbert Arnarson, Jón Bender og Lárus Blöndal.

Ester Alda Sæmundsdóttir, sem verið hefur gjaldkeri, gefur hins vegar ekki kost á sér áfram. Nýr stjórnarmaður kemur því í hennar stað. Verði fyrrnefndar breytingar á lögum KKÍ samþykktar þarf nýr stjórnarmaður að vera löglærður og sinna formennsku nýrrar laganefndar, þar sem ekkert þeirra sem áfram sitja í stjórn er lögfræðimenntað.

Skuldir lækkað um yfir 40 milljónir á þremur árum

KKÍ hefur birt ársreikning sinn. Þar kemur fram að tekjur sambandsins á síðasta ári voru rúmar 178 milljónir króna en gjöld tæpar 160 milljónir. Skuldir KKÍ umfram eignir námu í lok árs 2017 um 55 milljónum króna. Þær voru 31,8 milljónir í lok árs 2019 en eru nú komnar niður í 13,6 milljónir króna.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir 8,6 milljóna króna hagnaði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.