Innlent

Minnir á tíma Kröflueldanna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Vísir

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir jarðhræringarnar á Reykjanesi minna nokkuð á Kröflueldana á áttunda og níunda áratugnum. Páll var gestur í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann greindi stöðuna. Hann segir það ennþá vera nokkuð á reiki hvað rétt sé að kalla atburðina sem nú eru í gangi.

„Við höfum verið mest í dag að reyna að átta okkur á þessum atburði, og hvernig hann passar inn í þessa atburðarás sem er í gangi og er búin að vera í gangi núna í fjórtán mánuði. Það er búið að vera ókyrrt á Reykjanesskaga í fjórtán mánuði og umfram það sem vaninn er,“ sagði Páll.

„Hér hefur hver atburðurinn rekið annan, kvikuinnskot í janúar, febrúar og mars og svo aftur í sumar í mismunandi eldstöðvakerfum skagans og við vorum svona farin að búast hálfpartinn við að þetta væri nú farið að róast í vetur en svo brast á þetta fyrir viku síðan, þá kemur þetta stór skjálfti og í kjölfarið á honum röð af skjálftum sem raða sér á flekaskilin þarna. En það sem við sáum ekki þá, var að það virtist vera kvikuinnskot sem byrjaði fyrir viku síðan,“ útskýrði Páll.

„Þetta er það sem að síðan tekur rásina í dag, klukkan korter yfir tvö í dag, þá kemur inn í þessa atburðarás áköf skjálftahrina og það er enn verið að ræða það hvort að við eigum að kalla þetta óróa eða hvort að við eigum að kalla þetta bara skjálftahrinu.“

Níu gos en ellefu náðu ekki upp á yfirborðið

Páll segir að ennþá séu skiptar skoðanir um hvort tala eigi um virknina sem ákafa jarðskjálftahrinu eða hvort við eigum að kalla þetta óróakviðu eða óróapúls.

„Fyrir mér minnir þetta á, maður fær svona flashback stundum, þetta minnir mig á gömlu Kröfluárin, þegar Krafla var og hét og á níu ára tímabili komu níu gos í Kröflu, fjögur þeirra voru pínu lítil, fimm þeirra voru meðal stór, en þar að auki komu innskot,“ segir Páll. Í ellefu tilfellum hafi kvikan þó ekki náð upp á yfirborð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×