Guðmundur meiddist í upphitun fyrir leik Selfoss og Stjörnunnar í Olís-deildinni í gær.
„Ég er ekki búinn að fara í skoðun á sjúkrahúsi eða neitt slíkt. En Örnólfur bæklunarlæknir kom og kíkti á mig í gær. Hann var á leið í gegnum Selfoss og Jóndi [Jón Birgir Guðmundsson] sjúkraþjálfari hringdi í hann til að fá álit. Hann kíkti á mig og staðfesti það sem Jóndi sagði, að hásinin í vinstri fæti hefði slitnað,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í dag.
„Ég er bara að bíða með að heyra hver næstu skref eru. Það er líklega aðgerð en ég veit ekki hvenær hún verður. Þetta gerðist bara í gærkvöldi.“
Eins og það sé sparkað aftan í mann
Guðmundur áttaði strax á að eitthvað alvarlegt hefði gerst og segir að verkurinn í fætinum hefði rímað við lýsingar þeirra sem hafa slitið hásin.
„Kobe Bryant og fleiri sem hafa lent í þessu hafa lýst þessari upplifun, að þeim finnist eins og það sé sparkað aftan í mann. Þetta er mjög sérstök tilfinning. Ég var líka nokkuð viss sjálfur hvað hefði gerst þegar ég lá á gólfinu,“ sagði Guðmundur sem meiddist í miðjum spretti í upphitun.
„Þetta var ósköp venjulegt. Ég hef ekki verið þekktur fyrir gífurlega snerpu eða hraða og þetta voru engin gífurleg átök í þessum sprettum. Ég þekki ekki nógu vel hvað veldur, af hverju þetta gerist.“
Ljóst er að tímabilinu er lokið hjá Guðmundi og við tekur löng og ströng endurhæfing.
Erfið nótt
„Þetta eru einhverjir mánuðir. Að öllum líkindum horfir maður bara á næsta tímabil,“ sagði Guðmundur. Eðlilega er þungt yfir honum eftir þetta áfall.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn er ég rosalega sár og svekktur. Að lenda í þessu núna er mjög súrt og svekkjandi. Þetta var mjög erfið nótt.“
Guðmundur kom til Selfoss fyrir tímabilið eftir nokkur ár í atvinnumennsku. Hann kann vel við sig í Mjólkurbænum.
„Við fjöskyldan erum mjög ánægð hérna og búin að koma okkur rosalega vel fyrir. Þess vegna er þetta sérstaklega svekkjandi,“ sagði Guðmundur að lokum.