Skoðun

Kvíði sem heltekur börn

Anna Steinsen skrifar

Allir foreldrar, sem hafa kynnst því að eiga barn með kvíða, vita hvað það þýðir. Kvíðinn er óbærilegur, hann getur heltekið barnið og lamað í sumum tilvikum. Barn sem tekst á við mikinn kvíða og hugsanlega þráhyggju líka getur ekkert að því gert. Það geta farið ótal klukkustundir í að hjálpa barni að róa sig niður, ýta því út fyrir þægindahringinn, reyna að leiðrétta ranghugmyndir, hughreysta og gefa kærleik og knús. Þvílík angist getur gripið einstaklinginn og það er ekkert erfiðara, í orðsins fyllstu merkingu. en að horfa upp á sitt eigið barn kveljast úr kvíða. Þú ert svo tilbúinn til þess að laga þetta á staðnum. Taka utan um barnið og segja „það verður allt í lagi“ En svo bankar kvíðinn bara aftur upp á síðari hluta dags. Þú ert einhvern veginn hvergi óhultur. Börn og unglingar sem takast á við mikinn kvíða fá nánast aldrei frið fyrir hugsunum og áreiti hugans. Sama hvað við foreldrarnir gerum þá ráðum við ekki við að taka hugsanirnar í burtu. Sum börn upplifa mikinn kvíða og vanlíðan og getur það haft mikil áhrif á alla fjölskylduna. Í þeim tilvikum verður fjölskyldan meðvirk og fer að spila með eða ganga á glerbrotum. Allt gert til þess að forðast næsta kvíðakast. Það er svo sársaukafullt fyrir einstaklinginn og alla í kring.

Kvíði og þunglyndi er að aukast í heiminum og ekkert virðist geta stöðvað þennan vágest, sem mætir óboðinn, oft með mikil leiðindi og sársauka.

Ég hef hitt og þjálfað einstaklinga sem hafa þurft að takast á við mikinn kvíða. Einn sagði mér frá því að móðir hans ofverndaði hann. Hann þurfti að passa sig á öllu í lífinu. Mátti ekki tala við ókunnuga, allsstaðar var hætta, ekki gera þetta og ekki fara þangað og ekki segja þetta. Frá unga aldri var honum kennt að hætturnar voru alls staðar og þessi ungi drengur var hræddur allan daginn, alla daga, og best var bara að vera heima í búbblu.

Ekki vera þroskaþjófur

Við eigum að passa okkur á að ofvernda börnin okkar ekki. Þau verða að fá að taka sína slagi og munum samt að kvíði er líka eðlilegur. Flestir upplifa kvíða í einhverju formi. Kvíða fyrir prófi, verkefnum, að prófa nýja hluti, að hitta nýtt fólk og að fara í aðstæður sem þú þekkir ekki. Þetta er eðlilegur hluti af lífinu sem við getum ekki sleppt. Við getum aukið á kvíða þegar við forðumst hlutina og þar spila foreldrar stórt hlutverk. Ekki biðja um frí fyrir barnið þitt í hvert skipti sem það á erfitt með að takast á við hlutina, standa upp eða halda ræðu, fara í nýjar aðstæður, kynnast öðrum, o.s.frv. Hjálpaðu því áfram en passaðu að verða ekki krulluforeldri eða þyrluforeldri (sem vakir yfir börnum sínum allan liðlangan daginn og grípur inn í alltof snemma). Stelur þroskanum af barninu og ert það sem talað er um í fræðibókunum þroskaþjófur. Þú ætlar að hjálpa því svo mikið að það þarf ekki að takast á við neitt og lærir þar af leiðandi ekki hvernig á að takast á við hlutina. Hringir í þig öllum stundum og þú reddar öllu. Hvað lærir barnið á því ?

Við erum í mörgum tilvikum að ofvernda og ala börnin upp í bómull og það hjálpar alls ekki til, sérstaklega ekki, ef barnið er með kvíða.

Horfast í augu við óttann

Eina leiðin til að takast á við kvíða er að horfast í augu við óttann og takast á við hann. Ef kvíðinn er orðinn mjög hamlandi, þ.e. hann hefur áhrif á daglegt líf og barnið nær ekki að takast á við það, þá þarf faglega hjálp. Ekki segja barninu bara frá því hvað þú gerðir í gamla daga. Hvað þú varst dugleg eða duglegur að gera hina ýmsu hluti og horfðir sko ekki á sjónvarp á fimmtudögum. Varst mikið úti að leika þér og skipa svo barninu bara að hætta þessu væli. Þetta hjálpar barninu síður en svo, það fær samviskubit og upplifir sig sem verri manneskju Einhvern veginn aldrei nógu góð/ur. Í dag eru aðrir tímar og aðrar áskoranir. Við foreldar, vorum til dæmis ekki að takast á við alla þessa samfélagsmiðla. Hlustum frekar á hvað barnið hefur að segja, ekki ofvernda það, heldur hjálpum þeim að takast á við hlutina með því að setja mörk og nota kærleik. Ef þetta gengur ekki upp, leitum þá hjálpar.

Þú ert ekki kvíðinn!

Sum börn skilgreina sig út frá kvíðanum. Ég get þetta ekki af því að ég er með kvíða, ég á svo erfitt með þetta af því að ég er með kvíða, ég þori ekki þessu og hinu af því að ég er með kvíða. Við verðum líka að passa okkur á því að ala ekki upp á kvíða. Mikilvægt er að taka tillit til þess og skilja það, en ekki skilgreina barnið út frá kvíðanum og minnast á það endalaust. Já passaðu þig á þessu, því þú ert svo kvíðinn, þú ert bara kvíðasjúklingur og getur þetta ekki. Vertu ekkert að prófa eitt né neitt, haltu þig bara heima og andaðu í poka!

Þú ert ekki kvíðinn sjálfur. Hann er hluti af þér og það er allt í lagi. Það getur líka verið styrkleiki ef þú nærð að halda honum í ákveðnu jafnvægi því þú vilt gera hlutina vel, passa upp á að fólki líði vel, og standa þig í lífinu. Þetta er ekki neikvætt. Þetta er frábærlega jákvætt.

Umfram allt munum að kvíði er eðlilegt ástand. Það eru allir með kvíða fyrir einu eða öðru. Kvíðinn heldur okkur á tánum og sér til þess að við gerum hlutina eins vel og við getum og höldum áfram að þróast og reyna á okkur. Ef kvíðinn er hamlandi, leitaðu þá hjálpar sem fyrst og fáðu faglega hjálp fyrir þig eða þitt barn, það gæti bjargað lífi.

Höfundur er eigandi og þjálfari hjá KVAN.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.