Handbolti

„Skil vel að Haukarnir séu mjög pirraðir yfir þessu broti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir Guðmundsson var fluttur á sjúkrahús á meðan leik ÍR og Hauka stóð.
Geir Guðmundsson var fluttur á sjúkrahús á meðan leik ÍR og Hauka stóð. stöð 2 sport

Flytja þurfti Geir Guðmundsson, leikmann Hauka, á sjúkrahús eftir þungt högg sem hann fékk frá ÍR-ingnum Eyþóri Hilmarssyni í leik liðanna í Olís-deildinni í gær. Sérfræðingum Seinni bylgjunnar fannst skrítið að Eyþór skildi sleppa við rauða spjaldið fyrir brotið.

Um miðjan fyrri hálfleik fór Eyþór í andlitið á Geir sem lá óvígur eftir og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Í viðtali við Vísi eftir leikinn sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, að Geir hefði fengið heilahristing og brotið tönn. Haukar unnu leikinn, 26-29.

„Þetta er rosalega rautt spjald,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson um brot Eyþórs í Seinni bylgjunni í gær.

„Fyrsta spurning: til hvers? Hvað er hann að gera með þessu? Þetta er rosalegt högg. Eyþór er rosalegur skrokkur. Þetta er verra en ég sá í leiknum. Þetta er bara mjög vont brot. Með Eyþór, ég held þetta sé eðal drengur og held að þetta sé ekkert viljandi, en þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem hann brýtur svona af sér. Hann hefur verið inn og út úr boltanum, ég held hann sé bara hægur eða klaufi og þannig menn eru oft á tíðum hættulegir,“ sagði Jóhann Gunnar og rifjaði upp þegar hann lék í utandeildinni með mönnum sem voru í misgóðri æfingu.

Jóhann Gunnar segist skilja gremju Hauka. „Ég skil vel að Haukarnir séu mjög pirraðir yfir þessu broti. Þetta var svo tilgangslaust brot.“

Klippa: Seinni bylgjan - Meiðsli Geirs

Ásgeir Örn Hallgrímsson skilur ekki af hverju dómarar leiksins í Austurberginu lyftu ekki rauða spjaldinu eftir brotið á Geir.

„Ég veit ekki hvaða varnarhreyfing þetta er hjá honum. Þetta á ekkert skylt við handbolta. Ég er ekkert viss um að þetta hafi verið rosa viljandi en það er verið að bjóða upp á þetta. Svo finnst mér dómararnir gjörsamlega bregðast í sínu hlutverki. Það er verið að tala um að dæma eftir afleiðingum og eitthvað, þegar menn liggja svona eftir eru afleiðingarnar eins klárar og þær verða,“ sagði Ásgeir Örn.

„Fyrir utan það eru þeir ekkert með á nótunum. Sjúkraþjálfarinn hjá Haukum þarf að öskra sig inn á völlinn. Mér fannst þeir bregðast í þessu.“

Með sigrinum í gær komust Haukar á topp Olís-deildarinnar. ÍR-ingar eru hins vegar áfram stigalausir í tólfta og neðsta sætinu.


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.