Skoðun

Meingallað kerfi afurðastöðva

Gunnar Tryggvi Halldórsson skrifar

Umræða um fæðuöryggi hefur verið töluverð síðastliðin ár og sitt sýnist hverjum. Þannig finnst mörgum að stjórnvöld þurfi að gera meira til að tryggja það, m.a. með betri reglum um eignarhald á jörðum, tollavernd og fjármagn til nýsköpunar. Öðrum finnst merkilegra að efla alþjóðlegt samstarf í þessum efnum, hvernig svo sem það tryggir fæðuöryggi.

Í síðustu viku kom út skýrsla um málefnið sem unnin var fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þar eru Íslendingar taldir vel rúmlega sjálfbærir með fisk, af kjötþörf landsmanna er 90% framleitt innanlands og 43% af grænmeti. Fyrirsögn með frétt á Ríkisútvarpinu var „Íslensk framleiðsla fullnægir eftirspurn að mestu“.

Sumum finnst kannski þetta allt í lagi að þetta sleppi að „mestu“ en ég held að það sé full þörf á að bæta verulega í, og þá einvörðungu varðandi íslenska framleiðslu. Grænmetisframleiðsla er samkvæmt þessari skýrslu aðeins að anna tæplega helming neyslu. Það er algjört lykilatriði að ná þessari prósentutölu upp og setja fullan kraft í það. Það má gera með auknu fjármagni til nýsköpunar eða það sem betra er – með ódýrara rafmagni sem framleitt er í heimabyggð. Ég geri mér grein fyrir að þessi markaður er harður samanborið við innflutt grænmeti sem er ræktað án húsnæðis og rafmagns erlendis. Markaðshlutdeild sýnir þó að íslensk framleiðsla á góða möguleika á að stækka enn frekar og þá vegferð þarf að hefja – eigi síðar en núna.

Framleiðsla á kjöti er síðan sér kapítuli fyrir sig ! Sú framleiðsla styðst við kerfi sem fáir skilja að fullu. Kerfið virðist hannað til að allir tapi eða hangi áttavilltir í lausu lofti. Afurðastöðvar eru alltaf á tæpasta vaði og nú seinast greindi SS frá því að taprekstur væri vegna skorts á ferðamönnum í landinu. Bændur geta því ekki átt von á hækkun afurðaverðs þegar afurðastöð er rekin með halla, það þarf engan sérfræðing að sunnan til að skilja það. Kannski felast í þessu öllu einföld skilaboð til bænda. Ef góðu ferðamannaárin voru ekki að skila betra verði til bænda, hvernig er þessi rekstur eiginlega uppbyggður?

Hvorki afurðastöðvar né hráefnisframleiðendur (bændur) fá viðunandi hluta af kökunni. Hvað er að þessu kerfi? Fyrir löngu síðan varð það augljóst að þetta gengur ekki lengur upp og það er ekki endalaust hægt að skoða, vinna að, stefna á að eða setja einhver markmið í þessum málum. Það þarf að framkvæma og gera. Það er ein augljós skekkja í þessu ferli sem þarf að taka strax á. Það er sú staðreynd að afurðarstöðvar eru margir hverjir að flytja inn kjöt til að selja meðfram íslenskri framleiðslu sinni. Það er jafnvel settar takmarkanir á slátrun nautgripa á sama tíma og afurðastöðvar eru að flytja inn nautgripakjöt. Þetta er gert á sama tíma og afurðastöðvar eru að vinna fyrir bændur og margar í eigu bænda. Ef þetta er ekki hagsmunaárekstur, þá eru hagsmunaárekstur ekki til.

Margar afurðarstöðvar eru nefnilega ekki að vinna fyrir hagsmuni bænda, það er alveg ljóst. En það skal tekið fram að þetta á ekki við um allar kjötafurðastöðvar. Jafnframt er óskiljanlegt af hverju Landssamtök sláturleyfishafa eru ekki sterkari talsmenn á móti innflutningi á kjöti, sem ætti að vera eitt af þeirra aðal áhersluatriðum. Kannski er það af því að sumar afurðarstöðvar eru bæði að éta kökuna og halda henni. Bændur sem eiga afurðastöðvar þurfa að ganga fram með fordæmi, í breiðri samvinnu, og láta afurðastöðvar sínar hætta að vera þátttakendur í innflutningi á kjöti. Með því væru þær að setja hagsmuni bænda og atvinnusköpunar í fyrsta sætið. Í framhaldi er hægt að gera kröfu á fulltrúa afurðastöðva í Landssamtökum sláturleyfishafa að vinna gegn innflutningi á kjöti og leggjast á árar íslenskrar framleiðslu.

Ég er heldur ekki viss um að óskilyrt undanþága frá samkeppnislögum leysi allan vanda á einu bretti. Slík undanþága ætti meiri rétt á sér ef skorið væri á streng innflutning um leið og markmið samstarfs væri að flytja afurðir úr landi en ekki flytja úrbeinað kjöt inn í landið. Undanfarin ár hefur eignarhald á afurðastöðvum færst á færri hendur og það hefur ekki skilað sér til bænda með verðhækkunum. Þess vegna er ég ekki sannfærður um að heimild til meiri samvinnu skili sér alla leið til bænda, sem ætti að vera algjört forgangsatriði, nema að vel ígrunduðu máli.

Íslensk framleiðsla er atvinnulífi og landsbyggðinni mjög mikilvæg. Stór hluti matvöruframleiðslu fer fram á landsbyggðinni og oft eru þessi fyrirtæki máttarstólpar atvinnulífs smærri samfélaga. Þetta má heimfæra yfir á alla framleiðslu á Íslandi, hvort sem það er iðnaður, þjónusta, orkuiðnaður eða annað. Við viljum skapa atvinnu og öflug íslensk fyrirtæki sem geta sinnt innanlandsmarkaði sem og selt úr landi framleiðslu sína. Með því tryggjum við fæðuöruyggi á sama tíma og við sköpum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×