Handbolti

Tekur Svíinn hár­prúði við Ís­lendinga­liði Kristian­stad?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Olsson stýrði sænska landsliðinu á Evrópumótinu í handbolta árið 2016.
Olsson stýrði sænska landsliðinu á Evrópumótinu í handbolta árið 2016. EPA/Maciej Kulczynski

Sænska goðsögnin Staffan Olsson hefur verið orðaður við stjórastöðu sænska handknattleiksliðsins IFK Kristianstad. Íslendingarnir Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson leika með liðinu.

Samkvæmt frétt vefsins handbolti.is gæti Staffan „Faxi“ Olsson tekið við þjálfun Íslendingaliðsins í sumar en félagið er í leit að þjálfara um þessar mundir. Ljubomir Vranjes var rekinn rétt fyrir jól eftir tvö ár sem þjálfara liðsins. Ulf Larsson steig þá inn í en hann mun aðeins stýra liðinu fram á sumar.

Árangur liðsins heima fyrir hefur ekki verið ásættanlegur en Kristianstad er í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Ystads IF. Liðinu hefur gengið ágætlega í Evrópudeildinni þar sem það situr í öðru sæti B-riðils með fimm sigra og þrjú töp að loknum átta leikjum.

Hinn 56 ára gamli Olsson var á sínum tíma einn besti leikmaður í heimi áður en hann sneri sér að þjálfun. Hann hefur hins vegar tekið sér dágóða pásu og ekkert þjálfað síðan hann hætti sem aðstoðarþjálfari franska stórliðsins Paris Saint-Germain árið 2018. 

Þar áður hafði Olsson þjálfað sænska landsliðið á árunum 2008 til 2016 og á undan því stýrði hann sænska félaginu Hammarby frá 2005 til 2011. Það gæti því farið svo að Kristianstad verði annað liðið sem hann stýri í heimalandinu, það á eftir að koma í ljós þegar nær dregur sumri.

Ólafur Andrés Guðmundsson leikur með IFK Kristianstad.Christoffer Borg Mattisson/BILDBYRÅN



Fleiri fréttir

Sjá meira


×