Körfubolti

NBA dagsins: Endakarlinn Lillard tók enn og aftur yfir í Dame tímanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damian Lillard leiddi Portland Trail Blazers til sigurs í New Orleans.
Damian Lillard leiddi Portland Trail Blazers til sigurs í New Orleans. getty/Sean Gardner

Damian Lillard er oftar en ekki bestur þegar mest á reynir og sýndi það enn eina ferðina þegar Portland Trail Blazers sigraði New Orleans Pelicans, 124-126, í NBA-deildinni í nótt.

Lillard er einn besti „endakarlinn“ í NBA og oft er talað um síðustu mínútur leikja Portland sem „Dame tímann“, þegar hann tekur yfir.

Lillard skoraði átta af síðustu tíu stigum Portland í leiknum í New Orleans í nótt og bjó hin tvö stigin til fyrir Derrick Jones.

Zion Williamson kom New Orleans yfir með tveimur vítaskotum, 124-123, þegar 26 sekúndur voru eftir. Lillard skoraði í kjölfarið körfu góða, setti vítið niður og kom Portland í 124-126 sem urðu lokatölur leiksins.

Síðan Lillard kom inn í NBA 2012 hefur hann hitt úr 25 skotum á síðustu tuttugu sekúndum leikja þar sem hann annað hvort jafnar eða kemur liði sínu yfir, mest allra leikmanna í deildinni.

Lillard skoraði 43 stig í leiknum í nótt og gaf sextán stoðsendingar. Þetta var þriðji leikur hans í röð þar sem hann skorar að minnsta kosti þrjátíu stig og gefur að minnsta kosti tíu stoðsendingar. Lillard hefur þurft að bera ansi þungar byrðar fyrir Portland að undanförnu í fjarveru CJ McCollums og Jusufs Nurkic.

Lillard er fimmti leikmaðurinn í sögu NBA sem skorar allavega 43 stig og gefur sextán stoðsendingar eða meira í leik. Hinir eru Oscar Robertson, James Harden, Trae Young og Isiah Thomas.

Á þessu tímabili er Lillard með 29,8 stig, 4,4 fráköst og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Bradley Beal (32,8) og Stephen Curry (30,0). 

Portland hefur unnið sex leiki í röð og er í 4. sæti Vesturdeildarinnar með átján sigra og tíu töp.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum New Orleans og Portland, Golden State Warriors og Miami Heat, Boston Celtics og Atlanta Hawks auk flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 18. febrúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×