Körfubolti

Harden leiddi sögulega endurkomu Brooklyn í fjarveru hinna stjarnanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Harden átti frábæran leik gegn Phoenix Suns.
James Harden átti frábæran leik gegn Phoenix Suns. getty/Christian Petersen

Brooklyn Nets stöðvaði sex leikja sigurgöngu Phoenix Suns þegar liðin mættust í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Brooklyn vann fjögurra stiga sigur, 124-128.

Kevin Durant og Kyrie Irving voru ekki með Brooklyn í leiknum í nótt en þriðja stjarnan, James Harden, sýndi mátt sinn og megin. Harden skoraði 38 stig og gaf ellefu stoðsendingar fyrir Brooklyn sem lenti mest 24 stigum undir í leiknum en munurinn í hálfleik var 21 stig. Brooklyn hefur aldrei komið til baka eftir að hafa verið jafn mörgum stigum undir í hálfleik síðan félagið kom inn í NBA 1976.

Harden kom Brooklyn í fyrsta sinn yfir með þriggja stiga körfu þegar 31 sekúnda var eftir. Hann kláraði svo leikinn með tveimur vítaskotum. Þetta var fjórði sigur Brooklyn í röð.

Chris Paul skoraði 29 stig fyrir Phoenix, þar af sautján í 4. leikhluta. Devin Booker gerði 22 stig.

Boston Celtics reif sig loks upp eftir dapurt gengi að undanförnu og vann góðan sigur á Denver Nuggets, 112-99, á heimavelli.

Jaylen Brown skoraði 27 stig fyrir Boston og Jayson Tatum 21. Nikola Jokic skoraði 43 stig fyrir Denver og Jamal Murray 25.

Los Angeles Lakers vann Minnesota Timberwolves, 104-125, en þetta var fyrsti sigur Lakers í Minnesota síðan í mars 2015. Anthony Davis lék ekki með meisturunum vegna meiðsla.

LeBron James skoraði þrjátíu stig fyrir Lakers og tók þrettán fráköst. Dennis Schröder skoraði 24 stig og Montrezl Harrell skilaði sautján stigum af bekknum.

Úrslitin í nótt

  • Phoenix 124-128 Brooklyn
  • Boston 112-99 Denver
  • Minnesota 104-112 LA Lakers
  • Memphis 113-144 New Orleans
  • Milwaukee 113-124 Toronto
  • Oklahoma 104-115 Portland

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×