Handbolti

Öruggt hjá ÍBV gegn HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hrafnhildur Hanna var öflug í liði ÍBV í kvöld.
Hrafnhildur Hanna var öflug í liði ÍBV í kvöld. Vísir/Vilhelm

ÍBV vann sex marka sigur á HK í eina leik dagsins í Olís deild kvenna í kvöld. Lokatölur 24-18 Eyjakonum í vil.

Leikurinn var nokkuð lengi af stað og kom fyrsta markið ekki fyrr en á fjórðu mínútu leiksins. Það gerði Sigríður Hauksdóttir fyrir HK en gestirnir úr Kópavogi byrjuðu leikinn vel og voru til að mynda 6-3 yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Eftir það jafnaðist leikurinn út og undir lok fyrri hálfleiks náðu Eyjakonur góðu áhlaupi og voru þær marki yfir í hálfleik, 11-10.

Sóknarleikur HK hrundi svo í síðari hálfleik en þær skoruðu aðeins átta mörk gegn 13 hjá ÍBV sem vann leikinn á endanum örugglega, 24-18. ÍBV jafnar þar með Hauka að stigum með níu talsins í 5. sæti deildarinnar. HK er sem fyrr í 7. sæti með fimm stig.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sex mörk í liði ÍBV og þar á eftir kom Sunna Jónsdóttir með fimm mörk. Marta Wawrzykowska varði 14 skot í marki Eyjastúlkna og var með tæplega 47 prósent markvörslu.

Hjá HK var Elna Ólöf Guðjónsdóttir markahæst með fjögur mörk og Selma Þóra Jóhannsdóttir varði 18 skot og var með tæplega 43 prósent markvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×