Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Sel­foss 18-28 | Öruggt hjá Sel­fyssingum gegn botn­liðinu

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020 Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Selfyssingar sóttu sigur í Austurberg þegar liðið mætti ÍR, í frestuðum leik Olís-deildar karla í kvöld. Sigurinn var aldrei í hættu og lokatölur leiksins, 18-28.

Selfyssingar skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Andri Heimir skoraði fyrsta mark ÍR þegar um sex mínútur voru liðnar af leiknum.

Selfyssingar voru alltaf skrefi á undan en ÍR-ingar gáfu þeim leik fyrsta stundarfjórðung leiksins. Þá gáfu Selfyssingar í og í bland við klaufaleg mistök í sóknar- og varnarleik ÍR komu þeir sér í 7 marka forystu. Hálfleikstölur, 7-14.

Selfyssingar mættu sterkari í seinni hálfleik og héldu áfram að sigla fram úr ÍR-ingum, lokatölur leiksins 18-28 Selfoss í vil.

Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar mættu ákveðnari til leiks. Þeir spiluðu vel frá fyrstu mínútu leiksins og gáfu ekkert eftir. Halldór leyfði einnig ungum og efnilegum strákum að spreyta sig í leiknum og stóðu þeir sig mjög vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍR var það Gunnar Valdimar Johnsen atkvæðamestur með 3 mörk.

Hjá Selfoss var Sveinn Aron Sveinsson atkvæðamestur með sjö mörk. Ragnar Jóhannsson var með fimm mörk. Vilius Rasimas lokaði markinu og var með 13 bolta varða, 48% markvörslu. Alexander Hrafnkelsson kom sterkur inn á lokakafla leiksins og varði einnig mikilvæga bolta.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍR gekk illa, þeir réðu illa við 5-1 vörn Selfyssinga. Varnarleikur þeirra var ágætur en fengu samt sem áður á sig 28 mörk.

Hvað er framundan?

14. febrúar kl 19:30 mæta Selfyssingar, Fram í Safamýrinni.

Á sama tíma, 14. febrúar kl 19:30 fær ÍR, Aftureldingu í heimsókn.

Kristinn var fáorður í kvöld.Vísir/Vilhelm

Kristinn: Munurinn á liði sem ætlar sér að verða Íslandsmeistari og liði sem er í fallbáráttu

Kristinn Björgulfsson, þjálfari ÍR, var fáorður eftir tap gegn Selfoss í Olís-deild karla í kvöld.

„Þetta var miklu betra en fyrir norðan,“ voru fyrstu viðbrögð Kristins eftir leikinn.

ÍR-ingar héldu í við Selfoss fyrsta stundarfjórðung leiksins en eftir þá var ekki aftur snúið og Selfyssingar sigldu fram úr.

„Ég held að þetta sé munurinn á liði sem ætlar sér að verða Íslandsmeistari og liði sem er í fallbáráttu.“

ÍR tekur á móti Aftureldingu í næsta leik sem fer fram 14. febrúar kl 19:30

„Það er ýmislegt sem við þurfum að bæta og þá kannski leggjum við leikinn aðeins öðruvísi upp en við gerðum. Við mætum á sunnudaginn til þess að vinna og sjáum hvort það takist.“

Halldór Jóhann, þjálfari Selfyssinga, var sáttur með sigur kvöldsins.vísir/hulda margrét

Halldór Jóhann: Ég var mjög ánægður með allar sem komu inn

„Ég er ánægður, 10 mörk og allir heilir, við náum að spila öllum leikmönnunum og allir fengu séns í dag,“ sagði Halldór Jóhann, þjálfari Selfoss eftir sigur á ÍR í kvöld.

Nokkrir af lykilleikmönnum Selfoss voru ekki alveg að finna sig á parketinu í dag, aðspurður hvort leikja álagið hafi eitthvað að segja:

„Nei við vitum það að það eru ekkert allir sem spila sinn besta leik núna dag eftir dag og mikið leikjaálag. Við erum með stóran og góðan hóp, við náðum að rúlla þessu vel í dag en það er mismunandi milli leikja hvernig menn standa sig.“

„Við vorum komnir með góða forystu og þá fara menn kannski ómeðvitað að gefa aðeins eftir og eru kannski farnir að spara sig fyrir næsta leik þó svo að menn ætli sér ekki að gera það.“

Halldór var duglegur að skipta inn á og fengu nánast allir að leggja eitthvað til í sigri kvöldins.

„Við megum ekki gleyma því að þetta er þriðji leikurinn okkar síðan í október. Auðvitað þurfa öll liðin tíma og leikmennirnir þurfa líka tíma og í dag var þetta þannig að við gátum hreyft við.“

„Ég var mjög ánægður með allar sem komu inn, allir að leggja í púkkið og við erum með góða markvörslu og spila mjög góða vörn. Við fáum bara á okkur 18 mörk og hefðum getað skorað 35 ef við hefðum verið aðeins klókari að hlaupa fram,“ sagði Halldór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira