Körfubolti

Borche: Fráköst, vítanýting og skortur á einbeitingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche Ilievski segir að ÍR standi bestu liðum landsins ekki langt að baki.
Borche Ilievski segir að ÍR standi bestu liðum landsins ekki langt að baki. vísir/hulda margrét

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, sá ýmislegt jákvætt við frammistöðuna gegn Stjörnunni þótt hann væri svekktur með úrslit leiksins. Stjörnumenn unnu átta stiga sigur, 95-87, í leik þar sem þeir voru alltaf með forystuna.

„Ég er ekki ánægður með tapið. Við töpuðum með sjö stigum fyrir Keflavík og átta stigum í kvöld,“ sagði Borche við Vísi eftir leik. 

Hann átti auðvelt með að setja fingur á það hvað vantaði upp á hjá hans mönnum í kvöld.

„Fráköst, vítanýting, og svo skortur á einbeitingu á nokkrum augnablikum í vörninni. Við misstum einbeitinguna og Stjarnan refsaði. Á heildina litið stöndumst við þessum bestu liðum snúning en á sumum sviðum þurfum við að bæta okkur.“

Zvonko Buljan lék sinn fyrsta leik fyrir ÍR í kvöld og virkaði ryðgaður. „Hann náði bara einni fimmtíu mínútna æfingu með okkur í gær. Hann klúðraði sniðsskotum, lappirnar voru þungar og við þurfum að vinna í líkamlegu formi hans. En þegar allt smellur saman held ég að við getum keppt,“ sagði Borche.

ÍR var allan tímann í eltingarleik í kvöld. Mestur varð munurinn átján stig í 3. leikhluta þar sem ÍR-ingar áttu erfitt uppdráttar.

„Þeir náðu góðu forskoti en það góða er að við komum til baka. Við þurfum að vera einbeittari, sérstaklega í vörninni,“ sagði Borche sem lítur þó björtum augum til næstu vikna.

„Heilt yfir er ég mjög bjartsýnn. Strákarnir mínir gefa allt sem þeir eiga í leikina. Við vorum að spila við Keflavík og Stjörnuna sem eru topplið og þetta voru jafnir leikir. Við þurfum að byggja ofan á þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×