Körfubolti

43 stiga skotsýning hjá íslenskum körfuboltastrák í Liga EBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson átti rosalegan leik með Valencia liðinu um helgina.
Hilmar Smári Henningsson átti rosalegan leik með Valencia liðinu um helgina. Twitter/@LAlqueriaVBC

Hilmar Smári Henningsson er að gera frábæra hluti með b-liði Valencia í spænska körfuboltanum en hefur aldrei gert betur en um helgina.

Hilmar Smári skoraði þá 43 stig á 31 mínútu í 100-64 útisigri Valencia Basket B á CB Puerto Sagunto.

Þetta var hreinlega ótrúlega skotsýning hjá íslenska unglingalandsliðsmanninum sem hlýtur að vera farinn að banka á dyrnar hjá aðalliði Valencia sem og hjá íslenska A-landsliðinu sem kemur aftur saman seinna í þessum mánuði.

Hilmar Smári, sem alinn upp hjá Haukunum, hitti úr 16 af 19 skotum sínum í leiknum og 5 af 6 vítum sínum. Hann skoraði sex þriggja stiga körfur úr aðeins átta tilraunum.

Hilmar setti niður jafnmarga þrista og allt lið mótherjanna og var aðeins með sex körfum færra en allt lið Puerto Sagunto.

Hilmar var einnig með 3 fráköst, 2 stolna bolta og 1 stoðsendingu. Hann fékk 48 framlagsstig fyrir frammistöðu sína.

Hilmar Smári er með 16,6 stig í 14 leikjum Valencia Basket B í Liga EBA á leiktíðinni en alls hafa 39,3 prósent þriggja stiga skota hann ratað rétta leið.

Liga EBA er d-deildin á Spáni og alls eru 127 lið í henni en á undan henni eru Liga ACB, LEB Oro, og LEB Plata. Lið úr ACB eru sum með b-liðin sín í þessari deild og það á við um lið Valencia Basket B sem Hilmar Smári spilar með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×