Körfubolti

Kóngalæti í Staples Center hjá sjóðheitu Sacramento liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
De'Aaron Fox skorar hér hjá Los Angeles Clippers en miðherjinn Ivica Zubac er til varnar.
De'Aaron Fox skorar hér hjá Los Angeles Clippers en miðherjinn Ivica Zubac er til varnar. AP/Mark J. Terrill

Sacramento Kings er eitt heitasta lið NBA deildarinnar í körfubolta þessa dagana eftir sigur á Denver Nuggets og Los Angeles Clippers á innan við sólarhring um helgina.

De'Aaron Fox var frábær þegar Sacramento Kings vann 113-110 útisigur á Los Angeles Clippers. Kings liðið vann þarna sinn fjórða leik í röð en síðustu sigrarnir hafa komið á móti öflugum liðum eins og Boston Celtics, Denver Nuggets og Clippers.

Sacramento Kings hefur nú unnið sjö af átta leikjum sínum síðan að að liðið tapaði með nítján stigum á móti Clippers 20. janúar síðastliðinn.

De'Aaron Fox var með 36 stig og 7 stoðsendingar í leiknum en Buddy Hield skoraði 22 stig og nýliðinn Tyrese Haliburton kom með 13 stig og 6 stoðsendingar inn af bekknum.

Lou Williams skoraði 23 stig fyrir Clippers og Kawhi Leonard var með 20 stig og 10 fráköst en liðið var án Paul George í þessum leik sem er meiddur.

Donovan Mitchell vantaði bara eitt frákast í þrennuna þegar Utah Jazz vann 103-95 sigur á Indiana Pacers. Mitchell endaði með 27 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst en þetta var fimmtándi sigur Jazz liðsins í síðustu sextán leikjum.

Phoenix Suns er annað lið sem hefur verið að koma á óvart en liðið vann 100-91 sigur á Boston Celtics. Þetta var fimmti sigur liðsins í síðustu sex leikjum.

Mikal Bridges var stigahæstur í jöfnu Suns liði með 19 stig, Devin Booker var með 18 stig og 11 stoðsendingar, Cam Johnson kom með 17 stig af bekknum og Deandre Ayton skoraði 16 stig og tók 11 fráköst. Jayson Tatum var atkvæðamestur hjá Boston með 23 stig og 7 stoðsendingar.

Bam Adebayo var með 24 stig og 11 fráköst og Jimmy Butler var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu (17 stig, 19 fráköst og 9 stoðsendingar) þegar Miami Heat vann 109-103 sigur á New York Knicks í Madison Square Garden í New York.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

  • Los Angeles Clippers - Sacramento Kings 110-113
  • Phoenix Suns - Boston Celtics 100-91
  • New York Knicks - Miami Heat 103-109
  • Indiana Pacers - Utah Jazz 95-103
  • Charlotte Hornets - Washington Wizards 119-97
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×