Umfjöllun og viðtöl: Valur - Þór Þ. 67-86 | Þriðji útisigur Þórsara í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Styrmir Snær Þrastarson átti enn einn góða leikinn fyrir Þór í kvöld.
Styrmir Snær Þrastarson átti enn einn góða leikinn fyrir Þór í kvöld. vísir/Elín Björg

Þór Þ. vann sinn öruggan sigur á Val, 67-86, þegar liðin áttust við í Origo-höllinni í 9. umferð Domino‘s deildar karla í kvöld. Þetta var þriðji útisigur Þórsara í röð og fjórði sigur þeirra í síðustu fimm leikjum. Þetta var hins vegar annað tap Valsmanna í röð en það er þungt yfir Hlíðarendapiltum þessa dagana.

Kristófer Acox missti af þriðja leiknum í röð vegna meiðsla og þá er Sinisa Bilic einnig meiddur og lék ekki í kvöld. Valsmenn eiga samt að geta spilað betur en þeir sýndu í kvöld.

Valsmenn voru ívið sterkari í fyrri hálfleik en í þeim seinni hrundi leikur þeirra og Þórsarar tóku yfir. Valur skoraði aðeins tíu stig í 3. leikhluta og Þór vann seinni hálfleikinn, 47-25.

Valsmenn byrjuðu leikinn af krafti, sérstaklega Miguel Cardoso sem skoraði tíu af fyrstu tólf stigum liðsins. Eftir það gerði hann hins vegar ekki neitt í leiknum.

Valur hitti vel til að byrja með en kólnaði svo hressilega, sem betur fer fyrir Þór sem lék illa í 1. leikhluta. Staðan að honum loknum var 23-16, Valsmönnum í vil.

Larry Thomas, sem fékk tvær villur í 1. leikhluta, kveikti í Þórsurum í upphafi 2. leikhluta. Þeir nýttu sér meðbyrinn og náðu mest fjögurra stiga forskoti, 31-35.

Þá kom góður kafli hjá Val sem skoraði ellefu stig gegn fjórum og leiddi með þremur stigum í hálfleik, 42-39.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu átta stiga forskoti, 49-41. Þórsarar tóku þá rosalega rispu, skoruðu þrettán stig í röð og náðu yfirhöndinni.

Þeir unnu 3. leikhlutann, 21-10, og leiddu með átta stigum, 52-60, fyrir 4. leikhlutann. Þar héldu gestirnir áfram að hamra járnið meðan það var heitt.

Um miðjan 4. leikhluta voru úrslitin ráðin og þjálfararnir tæmdu í kjölfarið bekkina. Á endanum munaði nítján stigum á liðunum, 67-86.

Af hverju vann Þór?

Þórsarar hafa helst vakið athygli fyrir frábæran sóknarleik á tímabil en í kvöld var varnarleikurinn í fyrirrúmi. Gestirnir skelltu í lás í vörninni í seinni hálfleik og hún skóp sigurinn.

Það kom ekki að sök að Þór, sem hefur hitt best allra liða í deildinni úr þriggja stiga skotum, var aðeins með tuttugu prósent nýtingu fyrir utan. Þórsarar unnu frákastabaráttuna örugglega, 47-28, og töpuðu boltanum aðeins tvisvar sinnum í seinni hálfleik eftir að hafa tapað honum tólf sinnum í þeim fyrri.

Hverjir stóðu upp úr?

Liðsheildin hjá Þór var sterk og frammistaða leikmanna jöfn. Thomas var stigahæstur með 22 stig og Adomas Drungilas skoraði átján stig og hitti úr átta af níu skotum sínum. Styrmir Snær Þrastarson heldur svo áfram að heilla með frammistöðu sinni. Hann skilaði sextán stigum, sjö fráköstum, sex stoðsendingum og stal boltanum í tvígang.

Hvað gekk illa?

Valsmenn vantaði sóknarkraft í leiknum, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem liðið skoraði aðeins 25 stig. Þá áttu heimamenn lítið í gestina undir körfunni. Þór vann frákastabaráttuna sannfærandi, 47-28, og skoraði 54 stig inni í teig gegn 24 stigum Vals. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á sunnudaginn. Valur sækir þá botnlið Hauka heim á meðan Þór fær nýliða Hattar, sem hafa unnið tvo leiki í röð, í heimsókn.

Finnur Freyr: Fengum framlag úr fáum áttum

Finnur Freyr Stefánsson sagði að Valsmenn hefði vantað meiri sóknarmátt.vísir/hulda margrét

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, saknaði tveggja lykilmanna gegn Þór í kvöld, þeirra Kristófers Acox og Sinasas Bilic. Án þeirra áttu Valsmenn erfitt uppdráttar og töpuðu með nítján stigum.

„Við erum að spila á fáum mönnum og fengum framlag úr fáum áttum. Við spiluðum dálítið djarft í fyrri hálfleik en í þeim seinni var þetta eltingarleikur,“ sagði Finnur eftir leik.

Í seinni hálfleik hrökk Valssóknin í baklás og liðið skoraði aðeins 25 stig. Á meðan skoraði Þór 47 stig.

„Ekki að maður vilji alltaf tala um það sem vantar en það vantaði stóra og sterka pósta og menn sem eru hugsaðir í það að skora,“ sagði Finnur.

„Það vantaði fjölhæfari möguleika á þeim endanum. Síðan vantað hæð og breidd varnarmegin. Mér fannst við gera margt vel en ekki nógu vel.“

Finnur segir ekki liggja fyrir hvenær Kristófer og Bilic geta byrjað að spila á ný en vonar það besta.

„Það er erfitt að segja það en ég vona að þeir verði klárir á sunnudaginn. En það er alls óljóst. Sinisa meiddist stuttu fyrir fyrsta leik og hefur ekki verið sjálfum sér líkur í undanförnum leikjum. Eftir leikinn á Akureyri var komið nóg eftir að hafa þjösnast á þessu,“ sagði Finnur að endingu.

Lárus: Eðlilegt að menn væru flatir

Þórsararnir hans Lárusar Jónssonar hafa gert það gott að undanförnu.vísir/bára

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, var skiljanlega sáttur með að vinna Val en þetta var þriðji sigur liðsins á útivelli í röð.

Þórsarar voru þremur stigum undir í hálfleik en léku miklu betur í seinni hálfleik sem þeir unnu með 22 stigum.

„Við fórum að passa boltann betur. Við vorum með tólf tapaða bolta í fyrri hálfleik en töpuðum bara tveimur í þeim seinni. Svo fórum við að spila miklu betri vörn,“ sagði Lárus.

Þór tapaði á sárgrætilegan hátt fyrir Tindastóli í síðustu umferð og Lárus segir að svekkelsið hafi setið í hans mönnum framan af leik í kvöld.

„Mér fannst liðið vera flatt í fyrri hálfleik. Við spiluðum gegn Stólunum og vorum þar rændir um hábjartan dag, leikur sem var tekinn af þér af einhverjum öðrum en sjálfum þér eða mótherjunum. Leikmönnum fannst brotið á sér og svo koma þeir inn í leik og það er eðlilegt að þeir séu flatir,“ sagði Lárus.

Þórsarar hittu illa úr þriggja stiga skotum í leiknum, aðeins tuttugu prósent, en það kom ekki að sök.

„Við hittum mjög illa úr þriggja stiga skotum. En á móti kemur vorum við með sjötíu prósent nýtingu í tveggja stiga skotum og unnum frákastabaráttuna. Við héldum að það myndi kannski aðeins draga af Val, þeir eru með færri menn til að rúlla á,“ sagði Lárus.

Hann er að vonum sáttur með gengið það sem af er tímabili.

„Við erum mjög ánægðir og mér finnst liðið vera í góðum gír. Við höfum verið ágætlega þéttir varnarlega og verið nokkuð góð sóknarvopn. Við erum búnir að fara í nokkra slagi og standa okkur nokkuð vel finnst mér. Mér finnst liðið að slípast ágætlega saman en samt finnst mér við eiga slatta inni,“ sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira