Handbolti

Heims­meistararnir sluppu með skrekkinn í ó­trú­legum leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikkel Hansen er hann var rekinn af velli.
Mikkel Hansen er hann var rekinn af velli. EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany

Heimsmeistarar Dana eru komnir í undanúrslitin á HM í Egyptalandi. Þeir unnu heimamenn með herkjum í tvíframlengdum leik, 39-38, en leikurinn bauð upp á nánast allt sem handbolti getur boðið upp á.

Það var mikill og góður kraftur í heimamönnum. Þeir voru 8-6 yfir eftir stundarfjórðung en þá skoruðu Danir þrjú mörk í röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum er átján mínútur voru komnar á klukkuna.

Þeir leiddu svo 16-13 í hálfleik en aftur byrjuðu heimamenn hálfleikinn sterkt. Þeir voru komnir 18-17 yfir er langt um leið en er tíu mínútur voru eftir, var allt jafnt 23-23. Danir skoruðu næstu tvö mörk en Egyptar neituðu að gefast upp og jöfnuðu á ný, 25-25, er fimm mínútur voru eftir.

Mads Mensah Larsen kom Dönum yfir þremur mínútum fyrir leikslok 27-26 en Egyptar svöruðu þá með tveimur mörkum í röð og komust yfir. Magnus Landin jafnaði metin í 28-28 er hálf mínúta var eftir.

Mikkel Hansen var allt í öllu í kvöld.Slavko Midzor/Getty

Egyptar gerðu sig hins vegar seka um slæm mistök. Þeir gerðu vitlausa skiptingu og Danir fengu boltann á ný sem og Egyptar fengu tveggja mínútna brottvísun. Mikkel Hansen átti hins vegar enn eina slæmu sendinguna í síðustu sókn Dana og lokatölur 28-28 eftir venjulegan leiktíma.

Því þurfti að framlengja. Í framlengingunni virtust þeir dönsku sterkari og voru komnir tveimur mörkum yfir en Egyptarnir voru ekki af baki dottnir.

Þeir minnkuðu muninn í eitt mark og Danirnir héldu í lokasóknina. Það var dæmt leiktöf á Dani og eftir að flautan gall kastaði Mikkel Hansen boltanum frá sér. Dómararnir fóru í skjáinn og gáfu Hansen rautt spjald og dæmdu víti. Egyptar jöfnuðu úr vítakastinu, 34-34, og því þurfti að framlengja á ný.

Í annarri framlengingunni var spennan sú sama. Danir fengu vití og rautt spjald undir lok hennar, eftir brot Egyptana - í svipuðum dúr og brot Hansen, en Magnus Landin fór á vítapunktinn. Boltinn í stöng og inn. 35-35 eftir venjulegan leiktíma og tvær framlengingar.

Því réðust vítin í vítakastkeppni. Þar voru Darnirnir sterkari; skoruðu úr fjórum en Egyptar þremur og eru þar af leiðandi komnir í undanúrslitin. Þar mæta þeir annað hvort Spáni eða Noregi.

Mikkel Hansen var markahæstur Dana með tíu mörk. Magnus Saugstrup var frábær á línunni með sex mörk og Mathias Gidsel skoraði sex. Yahia Omar skoraði tíu mörk úr tólf skotum og Yehia Elderaa skoraði sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×