Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Grinda­vík 94-67 | Heima­menn skelltu grönnunum

Atli Arason skrifar
Dominykas Milka er algjör lykilmaður í Keflavíkurliðinu.
Dominykas Milka er algjör lykilmaður í Keflavíkurliðinu. Vísir/Vilhelm

Keflvíkingar skelltu Grindavík í stórleik kvöldsins í Domino´s deild karla en þarna mættust einu liðin sem höfðu ekki tapað leik í deildinni fyrir leik kvöldsins.

Keflvíkingar byrjuðu fyrsta leikhlutan af miklum krafti. Milka setti niður fyrstu körfuna áður en Deane Williams sýningin byrjaði! Deane var sendur oft á vítalínuna þar sem hann nýtti öll skotin sín í leikhlutanum og átti þar að auki eina flotta troðslu einn þrist og undir lok leikhlutans varði hann skot Dags Kárs með því að grípa boltann í háloftunum! Deane endaði fyrsta leikhlutann með 11 stig. Þegar mínúta var eftir af leikhlutanum voru Keflvíkingar með 12 stiga forystu, 20-8, en þá vöknuðu gestirnir og skoruðu 8 stig í röð það sem eftir var leikhlutans. 20-16 voru lokatölur fyrsta leikhluta fyrir heimamenn í Keflavík.

Bæði lið komu af miklum ákafa inn í annan leikhlutann og skiptust í raun á því að eiga hörku flottar rispur. Keflavík hótaði oft að stinga af en Grindavík náði jafn óðum að saxa á forskotið þegar heimamenn voru komnir á skrið. Munurinn var mest átta stig í stöðunni 38-30 en minnst var hann tvö stig, 32-30. Fór svo að annar leikhluti endaði með fimm stiga mun 43-38.

Keflavík réði lögum og lofum Í þriðja leikhluta sem var í raun algjör sýning heimamanna. Þegar leikhlutinn var rétt hálfnaður þá komust heimamenn í 13 stiga forystu í stöðunni 56-43. Eins og áður í leiknum þá fór Grindavík að saxa á forskot Keflavíkur en í stöðunni 58-50 lætur Joonas Jarvelainen reka sig upp í stúku fyrir að, því sem virðist, láta einhver miður ummæli falla á leikvellinum. Við það hrynur leikur Grindavíkur og heimamenn skora 10 stig á meðan gestirnir setja aðeins eitt það sem eftir lifir leikhlutans og staðan í lok þriðja leikhluta 68-51.

Í síðasta leikhluta héldu heimamenn áfram að hamra járnið við veika mótspyrnu gestanna. Keflavík komst í 21 stiga forskot snemma leikhlutans og mest í 30 stiga forskot, heimamenn héldu þessu forskoti út leikinn. Lokatölur 94-67. 27 stiga sigurs Keflavíkur í uppgjöri toppliðanna.

Af hverju vann Keflavík?

Þrátt fyrir áhorfenda lausa höll þá hélt Deane Williams uppi stemningunni með frábærum troðslum og jafnvel enn þá betri varnarleik.

Hvað gekk illa?

Að sama skapi þá datt öll stemning úr Grindavíkur liðinu þegar Joonas Jarvelainen var rekinn útaf. Gífurlegur munur á hálfleikjunum tveimur í þessum leik.

Hverjr stóðu uppúr?

Deane Williams átti framúrskarandi fyrsta leikhluta en Deane skoraði alls 11 stig í fyrsta leikhlutanum. Stóð þó upp úr þegar hann varði skot Dags Kárs með því að grípa skot þess síðar nefnda í miðju háflugi þar sem Deane fór hátt yfir sjávarmál. Deane gerði alls 19 stig og tók 8 fráköst og hélt uppi algjöri sýningu. Dominykas Milka var líka frábær með 23 stig og 12 fráköst sem og Calvin Burks með 20 stig og 7 fráköst.

Hvað gerist næst?

Grindavík á annan suðurnesja slag fyrir höndum, í þetta skiptið gegn Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni og verður það fyrsti leikur sjöttu umferðar. Keflavík spilar hins vegar annan toppslag í deildinni degi síðar, í þetta sinn gegn Stjörnunni í Garðabæ en Stjörnumönnum var fyrir mót spáð efsta sætinu af mörgum en sitja núna í öðru sæti deildarinnar, á eftir Keflavík.

Sáttur Williams

Deane Williams átti stórkostlegan leik í kvöld og átti þó nokkur atvik eins og varin skot, stolna bolta og troðslur sem allir óháðir ættu að njóta sín við að horfa á aftur og aftur. Deane var spurður út í þessi fallegu atvik í viðtali eftir leik en var hógvær í svörum sínum.

„Án áhorfenda verðum við að reyna að skemmta okkur inn á vellinum og reyna að halda stemningunni uppi sjálfir, hvort sem það eru leikmennirnir sem eru inn á eða á bekknum. Ég er glaður að ég gat hjálpað liðinu mínu með framlagi mínu í kvöld,“ sagði Deane Williams.

Keflavík keyrði yfir leikinn í seinni hálfleik. Hvað var það sem Keflvíkingar töluðu um í hálfleik? „Við ræddum það í hálfleiknum að við þyrftum að auka ákefðina og huga betur að smáatriðunum, vegna þess að smáatriðin telja öll saman við lokaflautið,“ svaraði Deane Williams.

Fyrir leikinn voru Keflavík og Grindavík einu ósigurðu liðin á toppi deildarinnar. Núna stendur Keflavík eitt eftir á toppnum en Stjarnan fylgir þeim fast á eftir hæla þeirra. Næsti leikur Keflavíkur er einmitt annar toppslagur gegn Stjörnunni.

„Það verður stór leikur. Við komum tvíefldir inn í þann leik eftir þennan góða leik í kvöld. Ef við getum komið inn í leikinn gegn Stjörnunni með sömu orkunni og við höfum komið inn í síðustu leiki þá eigum við góðan möguleika gegn þeim. Við verðum samt að vera varkárir, því að þeir eru með mjög gott lið. Við vitum alveg hvað þeir geta og við verðum að vera á tánum allan leikinn,“ sagði Deane, spenntur fyrir næsta leik áður en hann var svo spurður að því hvort Keflavíkur liðið væri það gott að liðið gæti verið ósigrað út leiktíðina

„Við verðum bara að bíða og sjá. Við tökum bara einn leik í einu, eina mínútu í einu. Svo sjáum við hvar við stöndum í lokin,“ sagði Deane Williams með stórt bros á vör.

Kristinn: Mér skilst að hann hafi sagt eitthvað sem hann átti ekki að segja

Kristinn Pálsson var vitanlega ekki sáttur eftir stórt 27 tap gegn Keflavík á útivelli í kvöld.

„Það er mikið sem við getum lært af þessu. Þetta var ekki nógu góð frammistaða hjá, sérstaklega í seinni hálfleik. Bæði liðin voru taplaus fyrir þennan leik og menn komu vel stemmdir inn í leikinn en þeir bara yfirspiluðu okkur og out-hössluðu okkur og það er eitthvað sem við þurfum að læra fyrir næstu leiki. Við erum að fara í svaka törn þannig að við verðum að taka þetta með og koma mótiveraðri í næstu leiki,“ sagði Kristinn frekar fúll í viðtali eftir leik.

Það munaði ekki nema 5 stigum á liðunum í hálfleik en Keflvíkingar vinna seinni hálfleikinn með 22 stigum. Það var því töluvert meiri munur á liðunum í þeim síðari. Joonas Jarvelainen var rekin út af um miðjan þriðja leikhluta, Kristinn telur það vera hluta af skýringunni. „Við missum stóra manninn okkar út, hann var rekinn út úr húsi. Hann var með 21 stig í fyrri hálfleik og var svolítið að draga vagninn fyrir okkur. Það er mikill missir að vera án kana og hans, þá erum við frekar litlir og eigum erfitt með að gera marga hluti. Það fór svolítið með þennan leik. Við vorum inn í leiknum fram af því, þó það hafi kannski orðið 8 stiga munur, þá vorum við samt inn í þessum leik,“ svaraði Kristinn.

Kristinn var ekki alveg viss hvers vegna Joonas var rekinn út af.

„Ég sá það ekki. Mér skilst að hann hafi sagt eitthvað sem hann átti ekki að segja, í hita leiksins þá getur allt gerst en við verðum bara að læra af þessu,“ bætti Kristinn við áður en hann var spurður út í afar áhugaverða viðureign sem Grindavík á næst, en það er leikur gegn uppeldisfélagi Kristins í Njarðvík.

„Mjög spenntur, það er bara að halda áfram og vonandi gengur okkur betur þar en hér,“ sagði Kristinn Pálsson, bakvörður Grindavíkur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.