Handbolti

„Þetta svíður svaka­lega“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur var ekki sáttur með sóknarleik Íslands í dag.
Guðmundur var ekki sáttur með sóknarleik Íslands í dag. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Guðmundur Guðmundsson var ekki sáttur með sóknarleik sinna manna í tveggja marka tapi gegn Sviss á HM í handbolta í dag. Hann sagði að mörg smáatriði hafi ekki fallið með Íslandi sem hafi á endanum leitt til þess að liðið tapaði leiknum.

„Þetta svíður svakalega. Ég ætla að hrósa leikmönnum fyrir hetjulega baráttu í dag, þeir gáfu hjarta og sál í leikinn. Við fengum aðeins á okkur 20 mörk en skorum því miður bara 18 og þar liggur þetta. Þetta liggur í smáatriðunum, það fara tvö til þrjú fráköst í hendurnar á þeim þegar við erum ekki til staðar. Svoleiðis hlutir sitja í mér og þetta svíður svakalega,“ sagði Guðmundur í viðtali við RÚV eftir leik.

„Sóknarlega var þetta mjög erfitt. Við erum að komast í ágætis stöður og vorum komnir yfir. Þetta var hálfgert ólán hjá okkur. Misnotum tvö víti og það fara alltof mörg dauðafæri, kannski ekki það mörg í heildina en hvert færi er svo dýrmætt í svona jöfnum leik. Það féll ekki með okkur nægilega vel,“ bætti Guðmundur við.

„Við áttum í erfiðleikum með að opna þessa vörn þeirra, það verður bara að segjast. Ef þeir standa aftarlega þurfum við að skjóta fyrir utan, þau skiluðu sér ekki í markið. Kannski vantar skotógnun fyrir utan,“ sagði hann um slakan sóknarleik Íslands í dag.

„Það var dýrt varnarlega að missa Alexander Petersson út. Dró aðeins úr okkur vígtennurnar. Þó þeir skori aðeins 20 mörk voru nokkur mistök hægra megin í vörninni þar sem þeir láku í gegn of oft. Þetta er samt fyrst og síðast sóknarleikurinn, skotnýtingin og að við hirðum ekki fráköst. Eru svona nokkur smáatriði sem enda í því að við töpum með tveimur mörkum.“

„Svo er annað sem við ætluðum að gera betur. Það voru hraðaupphlaupin, þau voru alls ekki nægilega góð í dag. Það virtist vera óöryggi yfir mannskapnum. Náðum ekki að fylgja því eftir en planið var að nýta þau betur í dag, það gekk ekki.“

„Það er allt mögulegt. Það eru tveir leikir eftir og við erum komnir hingað til að standa okkur svo við höldum áfram,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins, að lokum í viðtali á RÚV.


Tengdar fréttir

„Verður erfitt að sofna í kvöld“

„Þetta er ótrúlega fúlt. Það verður erfitt að sofna í kvöld,“ sagði Elliði Snær Viðarsson eftir tapið sára gegn Sviss á HM í handbolta í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.