Skoðun

Hvað er raun­veru­leg menntun?

Sólveig María Svavarsdóttir skrifar

Öll erum við sammála um mikilvægi menntunar fyrir börnin okkar. Í íslensku skólakerfi er að finna fjöldan allan að frábærum fagmönnum sem leggja sig alla fram um að sinna börnunum okkar. Víða er verið að vinna frábært starf.

Engu að síður finnst mér of mikil streita einkenna kerfið. Mörg börn fara í gegnum kerfið án þess að missa gleðina sína en við erum líka með börn sem missa gleðina sína á leiðinni.

Hvað verður um barn sem tapar gleðinni sinni? Það er líklegt að vegurinn verði grýttur.

Það er svo gríðar mikilvægt að fagna og mæta hverjum einstaklingi nákvæmlega eins og hann er. Leyfa honum að fara sinn farveg og efla hæfileika hans og getu.

Ég spyr mig stundum hvort núverandi skólakerfi okkar sé of einhæft. Hvort mögulegt sé að við séum að setja börnin okkar í of fá box eða hafa við of fáa reiti.

Ég veit það er auðvelt að gagnrýna og erfiðara að framkvæma. En ég held við þurfum að fara að fagna fleiri hæfileikum og setja fleira en örfá námsfög á hærri stall.

Hvernig væri að sá sem væri handlaginn og sterkur í smíði finndi að framlag hans væri jafn vel metið og hátt skór í íslensku? Hvernig væri að leyfa þeim sem sýnir afburðartakta í íþrótt en ætti erfitt með stæðfræði að læra stærðfræði gegnum íþrótt sína og áhugasvið? Hvernig væri að leyfa þeim sem hefur mikla orku og á erfitt með að vera kyrr að lesa bækur sínar upp í trjám og læra úti? Mætti hætta að hafa áhyggjur af því þó barn sé hæglæst í 2.bekk - treysta því að það fari þetta á sínum hraða og í takt við sinn þroska?

Ég held við þurfum að fara að treysta börnunum betur og þeirra vegferð. Þau eruá misjöfnum stað á mismunandi hraða en öll á leið í sömu átt. Hættum jafnframt að blekkja okkur á því að á Íslandi sé einstaklingsmiðað skólakerfi.

Ef við ætlumst til að öll börn borði skyr þá verður að leyfa þeim að gera það á sinn hátt. Af mismunandi skálum með mismunandi meðlæti og mismunandi bragði. Treystum þeim svo fyrir því að finna út hvenær þau eru södd.

Það er erfitt að mæla menntun. Verðmætasta menntunin er að barn tapi ekki gleði sinni og fari út í lífið með opið hjarta.

Fyrir mér er raunveruleg menntun lífshamingja.

Höfundur er grunnskólakennari og fjögurra barna móðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.