Handbolti

Ef að Stella kemst nálægt sínu gamla formi eru þetta risatíðindi

Sindri Sverrisson skrifar
Þorgerður Anna Atladóttir og Sunneva Einarsdóttir verða í góðum gír í upphitunarþætti Seinni bylgjunnar fyrir nýtt upphaf Olís-deildarinnar. Þátturinn er í kvöld kl. 20 á Stöð 2 Sport 3.
Þorgerður Anna Atladóttir og Sunneva Einarsdóttir verða í góðum gír í upphitunarþætti Seinni bylgjunnar fyrir nýtt upphaf Olís-deildarinnar. Þátturinn er í kvöld kl. 20 á Stöð 2 Sport 3. Stöð 2 Sport

Eftir góða hláturroku vegna mismæla Sunnevu Einarsdóttur fóru sérfræðingar Seinni bylgjunnar yfir þau stórtíðindi sem felast í endurkomu Stellu Sigurðardóttur í lið Fram.

Sunneva greindi frá tíðindunum í þættinum sem tekinn var upp í vikunni og verður sýndur kl. 20 í kvöld á Stöð 2 Sport 3. Brot úr honum má sjá hér að neðan.

Keppni í Olís-deildinni hefst svo á morgun, meðal annars með stórleik Fram og ÍBV sem sýndur verður á Stöð 2 Sport. Það verður að koma í ljós hvort Stella, sem var ein albesta handknattleikskona landsins, spili þar sinn fyrsta leik í tæplega sjö ár.

„Við skulum alveg halda því til haga að hún er að koma aftur eftir allsvakaleg höfuðmeiðsli þannig að hún er ekkert í byrjunarliðinu eða neitt, en hún er byrjuð að mæta á æfingar. Mögulega getur Stebbi [Stefán Arnarson, þjálfari Fram] nýtt hana eitthvað í þristinum eða einhvern veginn í vörninni og þá er það mjög jákvætt fyrir Fram. Svo er aldrei að vita hvað verður,“ sagði Sunneva.

„Í minningunni er hún þannig leikmaður að þetta eru náttúrulega risafréttir, en ef við hugsum þetta aðeins þá er auðvitað rosalega langt síðan að hún spilaði handbolta,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, þáttastjórnandi, og þær Þorgerður Anna Atladóttir og Sunneva tóku undir það.

„Hún hætti út af höfuðhöggi og varð mjög veik, og hefur svo eignast tvö börn síðan þá. Það er því enginn að setja pressu á hana. Hún er alla vega byrjuð að æfa og svo ætlar hún að sjá hvað verður. En ef að Stella kemst í sitt gamla form, eða eitthvað nálægt því, þá er þetta „huge“,“ sagði Sunneva.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Stellu Sigurðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×