Körfubolti

Doncic dreif Dallas áfram og annar stórleikur hjá Curry

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic bauð upp á þrefalda tvennu gegn Houston Rockets.
Luka Doncic bauð upp á þrefalda tvennu gegn Houston Rockets. getty/Christian Petersen

Eftir að hafa misst af síðasta leik vegna meiðsla átti Luka Doncic stórleik þegar Dallas Mavericks sigraði Houston Rockets, 100-113, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Doncic skoraði 33 stig, tók sextán fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Tim Hardaway yngri skoraði þrjátíu stig fyrir Dallas sem hefur ekki átt góðu gengi að fagna að undanförnu, eða síðan liðið rústaði Los Angeles Clippers með 51 stigi milli jóla og nýárs.

Steph Curry var nálægt þrefaldri tvennu þegar Golden State Warriors vann Sacramento Kings, 137-106, á heimavelli.

Curry skoraði 62 stig í fyrrinótt þegar Golden State sigraði Portland Trail Blazers. Hann var ekki alveg jafn heitur í nótt en átti samt góðan leik. Curry skoraði þrjátíu stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Sjö leikmenn Golden State skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð og er komið upp í 6. sætið í Vesturdeildinni.

Giannis Antetokounmpo skoraði 43 stig þegar Milwaukee Bucks bar sigurorð af Detriot Pistons, 125-115, á heimavelli.

Grikkinn hitti úr sautján af 24 skotum sínum í leiknum og tók auk þess níu fráköst. Þetta var annar sigur Milwaukee í röð.

Sigurganga Philadelphia 76ers hélt áfram þegar liðið lagði Charlotte Hornets að velli, 118-101. Þetta var fjórði sigur Philadelphia í röð en liðið er á toppi Austurdeildarinnar.

Tobias Harris var stigahæstur í jöfnu liði Philadelphia með 22 stig. Sjö leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum í nótt.

Úrslitin í nótt

  • Houston 100-113 Dallas
  • Golden State 137-106 Sacramento
  • Milwaukee 125-115 Detroit
  • Philadelphia 118-101 Charlotte
  • Orlando 103-83 Cleveland
  • Atlanta 108-113 NY Knicks
  • Miami 118-90 Oklahoma
  • Toronto 114-126 Boston
  • New Orleans 116-118 Indiana
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×