Innlent

Sér fram á færri námspláss og minna námsframboð

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Háskólinn á Akureyri hefur verið í sparnaðaraðgerðum í átta ár.
Háskólinn á Akureyri hefur verið í sparnaðaraðgerðum í átta ár. Fréttablaðið/Pjetur
Árið 2014 skrifuðu ráðamenn og stjórnendur háskóla undir stefnumótun Vísinda- og tækniráðs þar sem stefnt var að því að efla íslenskt þekkingarsamfélag og vísindastarf með auknu fjármagni.



Aftur á móti hefur fjármagn til háskóla ekki verið aukið síðustu tvö ár og ekki stefnt að því á næsta ári.



Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri segir engar bætur hafa komið til skólans eftir gífurlegan sparnað í skólanum frá kreppu. Hann bendir á að ef íslenskir háskólar eigi að geta staðið í samkeppni við erlenda háskóla þurfi að standa við stóru orðin.

 

„Með þá staðreynd að ekki er búið að lyfta okkur úr öldudal kreppunnar þá erum við ekki að horfa fram á annað en takmörkun námsplássa, að dregið verði úr námsframboði og almennt séð verði aðstaða fyrir nemendur hér á landi lélegri en gerist erlendis,“ segir Eyjólfur og bætir við að stjórnendur háskóla séu búnir að vera í samtali við ráðherra, þingmenn og ráðuneyti síðastliðin þrjú ár þannig að málið sé ekki nýtt af nálinni.



 

„Við erum að skora á stjórnvöld að standa við eigin stefnu sem var skrifað undir af Vísinda- og tækniráði árið 2014. Við erum ekki að fara fram á meiri fjárframlög til háskóla bara því við viljum meiri fjármuni. Þetta er stefna íslenskra stjórnvalda og er nauðsynleg svo við getum staðið í samkeppni til framtíðar,“ segir Eyjólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×