Körfubolti

Ræddu við Finn með Daníel á samning: „Getur sært stoltið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson á bekknum hjá Grindavík í vetur.
Daníel Guðni Guðmundsson á bekknum hjá Grindavík í vetur. Vísir/Daníel

Daníel Guðni Guðmundsson segist vera með þriggja ára samning við Grindavík sem þjálfari liðsins í Dominos-deild karla og á hann því tvö ár eftir af samningi sínum. Hann segir þó að það sé stjórnarfundur á morgun þar sem línurnar vonandi skýrast.

Mikið hefur verið rætt í körfuboltaheiminum að Finnur Freyr Stefánsson, sem tók við Val í gær, hafi einnig rætt við Grindavík en það kom mörgum á óvart þar sem flestir héldu að Daníel væri með samning. Það er raunin sagði hann sjálfur í Sportinu í dag.

„Ég er allavega ráðinn en það er stjórnarfundur á morgun þar sem það er kosið í nýja stjórn og þeir taka væntanlega ákvörðun út frá því hvort ég haldi áfram eða ekki,“ sagði Daníel Guðni í samtali við Kjartan Atla í dag. En hvað fannst Daníel um þessa stöðu?

„Þetta er „tough“ og getur sært stoltið, sérstaklega þegar maður er ráðinn til þriggja ára en ég skil stöðuna. Ef ég væri stjórnarmaður í félagi sem hefði mögulega á að fá Finn Frey, sem er sigursæll þjálfari og einn sá betri á landinu, þá myndi ég íhuga það. Ekki spurning.“

„Að sama skapi er ég ráðinn til þriggja ára og ég vil halda áfram með minn hóp og halda áfram í Grindavík því mér líkar vel þar. Það er ekki í mínum höndum en það er óskandi að ég fái að halda áfram. Ég hlakka til verkefnisins en að sama skapi er þetta harður heimur og maður veit hvað maður skrifar upp á þegar maður semur við lið,“ en viðtalið við Daníel í heild má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag - Daníel Guðni um stöðuna hjá Grindavík

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×